Kostnaður við rekstur íslensku lífeyrissjóðina stenst ágætlega samanburð við lífeyrissjóði á hinum Norðurlöndunum. Sé lítið á tölur frá Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD) um kostnað við lífeyrissjóði sem hlutfall af eignum þeirra sést að Ísland stendur ekki sérstaklega illa, með hærri kostnað en Danir, en lægri en Norðmenn og Finnar. Íslensku lífeyrissjóðirnir eru hins vegar á svipuðu reki og Sviss sem er með ágætlega stórt lífeyrissjóðakerfi. Þetta er mat hagfræðideildar Landsbankans sem fjallar um stöðu lífeyrissjóðanna í tengslum við nýlega úttekt Fjármálaeftirlitsins (FME).

Í Hagsjá hagfræðideildarinnar er bent á að raunávöxtun lífeyrissjóðanna hafi á síðustu tveimur árum verið vel yfir því 3,5% viðmiði um ávöxtun sem sjóðirnir búa við. Meðalávöxtun síðustu 10 ára að hruninu meðtöldu var 3,1%. Meðaltal síðustu fimm ára hefur hins vegar verið 3,7%.

Hagfræðideildin segir lífeyriskerfið orðið mjög stórt og þess vegna auðveldan skotspón í umræðunni.

„Gagnrýni og neikvæð umræða í garð lífeyrissjóðanna hefur að sumu leyti aukist eftir því sem þeir hafa orðið sterkari og þar með fyrirferðarmeiri í efnahagsumræðunni. Mikil umræða er t.d. um stjórn sjóðanna og hve ógagnsæir þeir eru. Það er hins vegar staðreynd að sjóðirnir hafa náð góðum árangri í gegnum tíðina þrátt fyrir hvernig þeim hefur verið stýrt,“ segir hagfræðideildin.