Síðasta vetur skipuðu stjórnvöld starfshóp, sem vinnur að því að greina stöðu kerfislega mikilvægra fyrirtækja í efnahagslífinu og hafa til taks neyðaráætlun vegna hugsanlegra áfalla. Undir þá vinnu heyra flugfélögin. Stefnt er að því að starfshópurinn birti niðurstöður sína í haust.

Skoða undirstöðugreinarnar

Fjórir ráðherrar komu til fundar á mánudaginn til að ræða stöðu íslensku flugfélaganna. Þetta voru þau Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferða-, iðnaðar- og nýsköpunarmála. Fengu ráðherrarnir skýrslu frá starfshópnum um stöðu mála í hans vinnu.

Bjarni segist í samtali við Viðskiptablaðið ekki hafa ástæðu til að ætla að staða fluggeirans sé sérstakt áhyggjuefni fyrir stjórnvöld.

„Við höfum enga ástæðu til að ætla að það sé eitthvað mikið fram undan þar til að hafa áhyggjur af en auðvitað fylgjast menn með,“ segir Bjarni. „Það er ekki nýtt að ör vöxtur í fluggeiranum kallar á aukið fjármagn. Það er auðvitað fyrir félögin sjálf að svara fyrir það. Við erum í sjálfu sér ekki að gera annað en að meta þessar stóru undirstöðuatvinnugreinar í landinu og greina þær.

Eins og hefur komið fram þá höfum við verið að skoða ferðamannageirann. Þegar við erum að gera þetta blandast þessi umræða um fluggeirann inn í það,“ segir Bjarni, sem vill ekki tjá sig um um tillögur starfshópsins að svo stöddu, þar sem vinnu hans sé ekki lokið.

Högg fyrir atvinnulífið

Það sem vinnur með íslensku flugfélögunum er að ferðaþjónustan er enn að vaxa, þó svo að hlutfallslegur vöxtur hafi minnkað. Staðan væri mun verri ef flugfélag væri að berjast í bökkum vegna samdráttar í ferðaþjónustu. Þá er staðan í flugmarkaði líka allt önnur en hún var fyrir nokkrum árum þegar aðeins örfá flugfélög flugu til landsins. Sá slaki sem yrði ef annað íslensku flugfélaganna myndi hætta rekstri yrði að öllum líkindum tekinn upp af öðrum flugfélögum. Það tæki samt vissulega tíma. Höggið yrði töluvert fyrir íslenskt atvinnulíf enda starfar fjöldi manna hjá íslensku flugfélögunum og tímabundin fækkun ferðamanna myndi hafa áhrif á fyrirtæki í ferðaþjónustu og tengdum greinum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .