Vísisjóðnum Crowberry II var endanlega lokað fyrr í mánuðinum með áskriftarloforð upp á 14 milljarða íslenskra króna. Útflutnings- og fjárfestingasjóður Danmerkur fjárfesti fyrir um 1,2 milljarða króna í sjóðnum sem er sá stærsti á Norðurlöndunum sem stofnaður er af hópi kvenna. Stofnendur sjóðsins eru þær Hekla Arnardóttir, Helga Valfells og Jenný Ruth Hrafnsdóttir.

Aðspurðar hvort vísbendingar séu um að of mikið af fjármagni sé komið í vísisjóði á Íslandi segjast þær ekki hafa fundið fyrir skorti á tækifærum hér á landi.

„Ætli fyrirtækin sér að vera samkeppnishæf þá þurfa þau góða fjárfesta og nóg af fjármagni. Þessi geiri hefur alltaf verið fjársveltur á Íslandi,“ segir Jenný.

Hún nefnir Kísildalinn sem dæmi um nýsköpunarumhverfi sem sé mun þroskaðara en það íslenska. Umræðan hafi oft verið á þá vegu að of mikið af fjármagni sé þar. Aftur á móti aukist fjármagnið á svæðinu alltaf samferða auknum vexti og hagsæld, en svo komi auðvitað bólurnar.

„Fyrir tveimur árum síðan kom Tiger Global inn á markaðinn með 6 milljarða dollara vísisjóð sem hafði vissulega áhrif. Í þannig kringumstæðum skiptir mestu máli að stíga eitt skref til baka og hafa það hugfast að ef okkur þykir verðmat óeðlilegt þá er það að öllum líkindum óeðlilegt,“ segir Jenný.

Viðtalið birtist í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út fimmtudaginn 19. janúar.