Félag atvinnurekenda og fyrirtæki í samkeppni við Íslandspóst ohf. telja ríkisfyrirtækið hafa veitt Viðskiptablaðinu röng svör þegar leitað var til þess vegna lánveitingar Íslandspósts til dótturfélags síns, ePósts ehf. Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir Íslandspóst ástunda mjög ósanngjarna samkeppni við einkafyrirtæki.

Í síðasta tölublaði Við­ skiptablaðsins birtist frétt þess efnis að ríkisfyrirtækið Íslandspóstur hefði undanfarin tvö ár lánað ePósti ehf., sem nemur 310 milljónum króna, en ePóstur starfar á almennum samkeppnismarkaði. Í fyrra greiddi ePóstur tæpar 2.700 krónur í vexti af lánum sínum. Í fréttinni kom fram að Íslandspóstur teldi fjármögnunina á engan hátt ólögmæta, ePóstur sé dótturfélag félagsins sem sinnir m.a. þróunarverkefni félagsins á sviði rafrænna lausna. Á þróunartímabilinu hafi verkefnið verið fjármagnað af móðurfélaginu. Um sé að ræða langtímaverkefni sem ráðist hafi verið í annars vegar með það í huga að styrkja tekjugrunn Íslandspósts og hins vegar að fylgja eftir lögbundnu verkefni fyrirtækisins sem sé að þróa póstþjónustu í samræmi við tæknilega möguleika og nýjungar.

Í kjölfar birtingar fréttarinnar bárust Viðskiptablaðinu hins vegar athugasemdir frá hagsmunaaðilum segja Íslandspóst hafa veitt Viðskiptablaðinu röng svör.

Hrekja útskýringar Íslandspósts

Íslandspóstur fer með einkarétt íslenska ríkisins í dreifingu almennra bréfa undir 50 gr. ásamt uppsetningu, rekstri póstkassa og útgáfu frímerkja. Hvað alla aðra póstþjónustu varðar er Íslandspóstur hins vegar í samkeppni við aðra aðila á markaðnum. Hagsmunaaðilar sem komu að máli við Viðskiptablaðið telja ljóst að starfsemi ePósts falli ekki undir lögbundið hlutverk Íslandspósts með tilvísun í póstlög enda engin ákvæði í lögunum sem taki til þeirrar þjónustu.

Þetta hafi verið staðfest í svarbréfi frá Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) árið 2013 og því hafi Íslandspósti ekki verið heimilt að færa fjármagn úr þeim hluta rekstursins sem fyrirtækið hafi einkarétt á til uppbyggingar á samkeppnisrekstri. Í svari Íslandspósts í síðasta tölublaði sagði jafnframt að taprekstur undanfarinna ára mætti rekja til fækkunar bréfasendinga innan einkaréttar um helming sl. 15 ár samhliða óbreyttum þjónustukröfum. Hvort þetta tiltekna þróunarverkefni hefði verið valið eða eitthvað annað breyti því í sjálfu sér ekki lausafjárstöðu Íslandspósts.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið á pdf-formi undir Tölublöð.

ATH: Þau mistök áttu sér stað við útgáfu greinarinnar að fjallað var um Félag Atvinnurekenda sem Samtök Atvinnulífsins í upphafi fréttar. Viðskiptablaðið biður hlutaðeigandi aðila afsökunar og harmar mistökin.