Actavis er tryggt fyrir þeim kostnaði sem hljótast kann af málaferlum á hendur félaginu í Bandaríkjunum að sögn Sigurðar Óla Ólafssonar, nýráðins forstjóra þess. Um hálfur tugur málssókna hefur komið fram undanfarna viku vegna hjartalyfsins Digitek, sem Actavis innkallaði í apríl síðast liðnum, en viðkomandi aðilar telja að rekja megi veikindi og jafnvel dauðdaga til notkunar lyfsins.

Fjölmargir að íhuga málsókn

Fyrsta málshöfðuninni vegna málsins fyrir alríkisdómstóli, sem lögð var fram fyrir hálfum mánuði í Alabama-ríki, lýtur að notkun konu að nafni Bobbie Dyal á lyfinu. Nokkrum vikum áður en lyfið var innkallað fékk hún hjartaáfall og var flutt á sjúkrahús, þar sem gangráður var græddur í hana. Hún telur rót áfallsins vera notkun hennar á Digitek og hafi það valdið varanlegum skemmdum á hjarta hennar.

Lögmaðurinn John Bisnar, stofandi lögmannsstofunnar Bisnar Chase í Kaliforníu-ríki, er einn þeirra bandarísku lögmanna sem hyggst herja á Actavis vegna málsins og hefur nú með greinaskrifum auglýst eftir hugsanlegum fórnarlömbum. Í greininni segir hann meðal annars:

„Við höfum nokkra skjólstæðinga sem misstu fjölskyldumeðlimi sem tóku of stóra skammta af Digitek, er stafar af tvöföldum skammti af virka efninu frá framleiðanda. Við höfum verið í sambandi við fjölmarga aðra sem telja sig hafa þolað alvarlegar aukaverkanir af völdum lyfsins og eru að íhuga málsókn,” segir hann. Bisnar hvetur síðan Actavis til að axla ábyrgð á gallaðri framleiðslu sinni með því að bæta meintum fórnarlömbum skaðann. “Án efa hefur félagið nú þegar ráðið hóp valdamikilla lögfræðinga sér til varnar og munu eyða milljónum dollara í baráttunni við málsóknir. Það er venja lyfjafyrirtækja að verja hættuleg lyf samtímis því að kenna þeim lögmönnum sem annast miskabótamál um að sækja málin.”

Taflan tvöföld vegna mistaka

Digitek var m.a. notað við meðhöndlun hjartaáfalla og óreglulegs hjartsláttar. Þegar lyfið var innkallað í vor kom fram hjá bandaríska lyfjaeftirlitinu að notkun þess gæti valdið því að notendurnir innbyrtu um tvöfalt stærri skammt af virka efni þess, digoxín, en ráðlegt væri, og afleiðingarnar gætu verið alvarlegar, jafnvel banvænar. Eftirlitið hefur fengið allnokkrar tilkynningar um slík tilvik og Actavis hefur borist um ellefu slíkar.  „Við gæðaeftirlit hjá Actavis fannst tvöföld tafla, en það hefur hins vegar ekki verið sýnt fram á að töflur af þeirri stærð hafi verið sendar út. Þetta stafar af framleiðsluvandamáli en ekki af öðrum ástæðum,” segir Sigurður Óli.

Aðspurður um hvort að hann eigi von á skriðu málsókna kveðst hann ekki reikna með því. „Ég hreinlega veit það ekki en býst þó síður við hrinu málsókna og alls ekki vegna annarra lyfja en Digitek. Við vinnum hins vegar náið með lyfjaeftirlitinu og lögfræðingum okkar og erum vel í stakk búnir til að fást við þessi mál.”

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .