Laus er til umsóknar staða forstöðumann skrifstofu skilavalds Seðlabanka Íslands. Umrætt skilavald er nýtt stjórnvald sem hefur með höndum undirbúning og framkvæmd skilameðferðar lánastofnana og verðbréfafyrirtækja. Umsóknarfrestur um starfið er til og með 15. september næstkomandi.

Þótt skilavaldið sé vistað innanhúss hjá Seðlabanka Íslands er stjórnvaldið aðskilið öðrum verkefnum bankans. Markmiðið með því er að tryggja skilvirkni aðgerða, sjálfstæði og komast hjá hagsmunaárekstrum innan bankans. Ástæðu þess má rekja til kenninga um umburðarlyndi eftirlitsstjórnvalds sem kunni að draga það að grípa til nauðsynlegra aðgerða vegna rekstrarerfiðleika fjármálafyrirtækis í þeirri von að leyst verði úr erfiðleikunum með öðrum og vægari hætti.

Skrifstofan sjálf mun vera staðsett á sviði fjármálastöðugleika en heyra beint undir seðlabankastjóra. Meðal verkefna verðandi forstöðumanns verður að bera ábyrgð á uppbyggingu og þróun skilavaldsins. Þá ber hann ábyrgð á gerð skilaáætlana, undirbúningi og gerð tillagna um lágmarkskröfur um eiginfjárgrunn lánastofnana og verðbréfafyrirtækja og yfirferð virðismats. Tillögur um beitingu skilaúrræða og skilaheimilda munu einnig stafa frá honum.

Gerð er krafa um að umsækjendur hafi háskólamenntun sem nýtist í starfi og búi yfir sterkum leiðtogahæfileikum og víðtækri stjórnunarreynslu. Sömu sögu er að segja af reynslu og þekkingu á fjármálakerfinu og fjármálamörkuðum. Yfirgripsmikil greiningarfærni og þekking á efnagsreikningi lánastofnana og verðbréfafyrirtækja er einnig skilyrði.

Viðkomandi verður einnig að búa yfir færni í mannlegum samskiptum, drifkrafti og metnaði til að ná árangri í starfi og til að setja á fót skrifstofu skilavalds. Þá er gerð krafa um gott vald á íslensku og ensku í ræðu og riti.

Auglýsinguna má sjá hér .