Nox Medical auglýsir nú eftir fólki til starfa vegna aukinna umsvifa fyrirtækisins. Um er að ræða níu tækni-, verkfræði- og þekkingarstörf sem þýðir að starfsmönnum Nox Medical á Íslandi mun fjölga um 15%.

Hagstæðari rekstrarskilyrði í kjölfar breytinga á lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki eru sögð skipta sköpum til að fyrirtækið geti farið í ráðningarnar nú, og eru þessar breytingar sagðar hvati til vaxtar.

Búnaður notaður i 15 milljón evra rannsókn

Nox Medical er jafnframt meðal þátttakenda í Svefnbyltingunni – þverfaglegu og alþjóðlegu rannsókna- og þróunarverkefni, sem leitt er af Ernu Sif Arnardóttur, lektor við Háskólann í Reykjavík.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um fékk verkefnið í síðustu viku vilyrði fyrir tveggja og hálfs milljarða króna, eða 15 milljón evra, styrk til fjögurra ára úr Horizon 2020 rammaáætlun ESB fyrir rannsóknir og nýsköpun.

Í verkefninu verða notuð lækningatæki frá Nox Medical sem fólk getur sett á sig sjálft heima og með þeim er hægt að fylgjast með svefni fólks í þrjár nætur, auk þess sem tækin safna mun ítarlegri upplýsingum en eldri tæki.

Nox Medical mun í verkefninu vinna að áframhaldandi framþróun lausna fyrirtækisins og að því að bæta hefðbundnar greiningaraðferðir og auka sjálfvirkni í úrlestri mælinganna með aðstoð gervigreindar og stórra gagnasafna.

Pétur Már Halldórsson , framkvæmdastjóri Nox Medical segir að vöxtur fyrirtækisins hafi verið mikill á síðustu árum og reksturinn gengið mjög vel.

„Við höfum fært út kvíarnar og rekum nú umfangsmikla starfsemi okkar í Bandaríkjunum undir merkjum Nox Health. Vegna aukinna umsvifa og til að undirbúa næsta vaxtastökk í samstarfi við Nox Health þurfum við að fjölga starfsfólki töluvert,“ segir Pétur Már.

„Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að hækka endurgreiðsluhlutfall vegna fjárfestinga okkar í rannsóknum og þróun auðveldar okkur þessa ákvörðun og er hún vissulega hvati til áframhaldandi vaxtar og fjölgun starfa.“

Nox Medical er fjórtán ára gamalt hátæknifyrirtæki og er leiðandi í framleiðslu á tækni og tækjabúnaði sem notaður er til greiningar á svefnröskunum. Búnaðurinn er notaður af læknum og heilbrigðisstarfsmönnum og ætla má að 2,5 milljónir manna um heim allan njóti árlega bættrar svefnheilsu þar sem lausnir Nox Medical eru notaðar til greiningar á svefnvandamálum.

„Nýsköpun er ein meginforsenda aukinnar verðmætasköpunar og samkeppnishæfni fyrirtækja. Slík verðmætasköpun er ein af meginstoðum hagvaxtar allra þjóðríkja og þar er Ísland ekki undanskilið. Við erum stolt af þeim árangri sem við höfum náð og þökkum hann þeirri einvala sveit sérfræðinga sem Nox Medical hefur á að skipa. Við erum ákaflega stolt af því, mitt í miðjum heimsfaraldri, að geta haldið áfram að sækja fram til frekari verðmætasköpunar og geta nú aukið enn frekar við mannauð okkar.“ segir Pétur Már.

„Ríkisstjórnin er ekki öfundsverð á erfiðum tímum en hún á hrós skilið fyrir að hafa sýnt mikilvægi nýsköpunar skilning og hafa hækkað endurgreiðsluhlutfall vegna fjárfestinga í rannsóknum og þróun. Slík hækkun endurgreiðslu mun alltaf skila margfalt hærri ábata til ríkissjóðs en sem nemur endurgreiðslunni. Sá ábati mun auka hér hagvöxt og bæta lífskjör komandi kynslóða“.