*

fimmtudagur, 4. júní 2020
Innlent 8. október 2019 07:12

Auglýsa eftir varaseðlabankastjóra

Katrín Jakobsdóttir mun skipa varaseðlabankastjóra fjármálastöðugleika á næstu vikum.

Ritstjórn
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mun taka ákvörðun um hver verður varaseðlabankastjóri.
Gígja Einars

Auglýst hefur verið eftir nýjum varaseðlabankastjóra, sem mun hafa yfirumsjón með fjármálastöðugleika innan Seðlabankans.

Með sameiningu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins sem tekur gildi um áramótin verða seðlabankastjórar fjórir.

Ásgeir Jónsson, verður áfram seðlabankastjóri. Rannveig Sigurðardóttir, verður varaseðlabankastjóri með peningmál á sinni könnu og Unnur Gunnarsdóttir, núverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins, verður varaseðlbankastjóri með umsjón með fjármálaeftirliti.

Ekki hefur verið ráðið í fjórða varaseðlabankastjórastarfið, sem nú er auglýst. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mun skipa í starfið til fimm ára. Í auglýsingu í Lögbirtingarblaðinu segir að umsækjendur skulu hafa lokið háskólaprófi sem nýtist í starfi og búa yfir víðtækri reynslu og þekkingu á fjármálastarfsemi.

  • Að auki verða eftirfarandi hæfnisviðmið lögð til grundvallar:
  • Þekking á helstu viðfangsefnum á sviði fjármálastöðugleika.
  • Þekking á laga- og regluumhverfi á sviði fjármálastöðugleika.
  • Færni til að tjá sig skipulega í ræðu og riti bæði á íslensku og ensku.
  • Reynsla af alþjóðlegu samstarfi.
  • Reynsla af stjórnun og hæfileikar á því sviði.
  • Hæfni í mannlegum samskiptum.

Fjármála- og efnahagsráðherra mun skipa þriggja manna nefnd er hefur það hlutverk að leggja mat á hæfni umsækjenda um embættið. Verður einn nefndarmaður skipaður samkvæmt tilnefningu samstarfsnefndar háskólastigsins, einn samkvæmt tilnefningu bankaráðs Seðlabanka Íslands og einn án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar. Umsóknarfrestur um starfið er til og með 24. október 2019.

Þá hefur ekki verið ráðið í starf framkvæmdastjóra fjármálastöðugleikasviðs Seðlabanka Íslands eftir að Harpa Jónsdóttir lét af störfum og tók við sem framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Níu sóttu um starfið líkt og Viðskiptablaðið greindi nýlega frá.

Stikkorð: Seðlabankinn