Fjölmiðlafyrirtækið Omnicom Media Group, sem er dótturfélag Omnicom Group, hyggst eyða um 20 milljón dollurum, um 2,8 milljarðar króna, í auglýsingar í hlaðvarpsþáttum Spotify. Samningurinn gildir fyrir seinni hluta ársins.

Félagið segist auka auglýsingar sínar í hlaðvörpum, frekar en annars staðar, útaf tveimur ástæðum. Annars vegar þar sem áheyrendum fjölgar ört og hins vegar vegna þess að auglýsingar þar séu sífellt að verða markvissari og mælanlegri. Frá þessu er greint á vef The Wall Street Journal.

Mikill uppgangur hefur verið á vinsældum hlaðvarpa en Spotify hefur nýlega landað samning við Joe Rogan og Kim Kardashian um hlaðvarpsþátt hjá streymisveitunni.

Markaðsaðilar spá að um 863 milljónum dollara, um 121 milljarði króna, verði varið í auglýsingar í Bandarískum hlaðvarpsþáttum þetta árið. Gangi það eftir er aukningin 27,2% milli ára.