Danski fréttavefurinn business.dk segir ánægju ríkja hjá helstu auglýsendum Nyhedsavisen með tíðindi af breyttu eignarhaldi þess og hrósa menn Morten Lund, aðaleiganda þess, fyrir að hafa náð að fá nýja fjárfesta til liðs við blaðið. Ljóst er orðið að bandaríska fjárfestingarfyrirtækið Draper Fisher Juvertson (DFJ) muni leggja til þess fjármuni og verða annar stærsti eigandinn, á meðan eignarhlutur Stoða Invest, félags Baugsmanna sem kostað hefur mikið til við að hrinda því af stokkunum, verður um 15% Virðast Danir mun sáttari við bandarískt eignarhald á blaðinu en íslenskt.

DFJ er eitt stærsta áhættufjárfestingafyrirtæki heims og er ársvelta þess um 5,5 milljarðar dollara. Á meðal fjárfestinga þess í gegnum tíðina eru Hotmail og Skype, sem Morten Lund tengdist. Forsvarsmenn Nyhedsavisen vilja ekki upplýsa um umfang fjárfestingarinnar og gefa aðeins upp að Bandaríkjamennnirnir leggi þriggja stafa fjárhæð í eignarhaldsfélag Mortens Lund, ML Media Aps, og aukist hlutur þess í Nyhedsavisen úr 51% í 85% í kjölfarið. Auk 15% eignarhlutar á Stoðir Invest skuldabréf á félagið að verðmæti 250 milljón krónur danskra, sem jafngildir um 4,2 milljörðum íslenskra, en greiðsla þess mun m.a. velta á boðaða skráningu félagsins í kauphöll og verðmæti við sölu.

Segulmagnið meira en bláskjár

„Það er gleðiefni að fá bandarískt fjárfestingafélag inn í verkefnið. Menn gera ekki slíkt aðeins vegna bláu augnanna í Morten Lund,” hefur fréttavefurinn eftir Claes nokkrum Braagard, sölustjóra hjá OMD. Hann bendir einnig á að hefði Nyhedsavisen hætt störfum hefðu stærstu blaðaútgefendur á dönskum markaði, svo sem JP/Politikens Hus og Berlingske Media blygðunarlaust þvingað upp auglýsingaverð. Þó svo að þeir muni væntanlega ásamt Nyhedsavisen reyna að hækka auglýsingaverð á haustdögum muni það veitast þeim torsóttara í ljósi þess að Nyhedsavisen er orðið mest lesna dagblað landsins.

Hann dregur þó í efa að blaðið nái að þrefalda útbreiðslu sína á næsta ári, eins og eigendurnir gera sér vonir um, og einnig þyrfti að efla mjög dreifingarfyrirtæki þess, Morgendistribution Danmark, eigi blaðið að styrkja stöðu sína til framtíðar. Hann spáir því að áskriftarblöðin muni í auknum mæli sérhæfa sig og aðlagast ákveðnum markhópum á meðan Nyhedsavisen verði blað fyrir fjöldann.