Auglýsingar bandaríska fataframleiðandans American Apparel hafa verið bannaðar í Bretlandi vegna nektar sem þykir óviðeigandi. Bannið er lagt fram á þeim grundvelli að of langt sé gengið með útlit og stellingar fyrirsæta.

Þekkt er að auglýsingar sem birtar eru á vegum fyrirtækisins í Evrópu annars vegar og í Bandaríkjunum hins vegar eru ólíkar þar sem Evrópa þykir frjálslyndari. Auglýsingarnar hafa því verið „ritskoðaðar“ áður en þær hafa verið birtar bandarískum neytendum.

Nú hafa yfirvöld í Bretlandi hins vegar bannað ákveðnar auglýsingar fyrirtækisins sem eru sagðar ögrandi og til þess gerðar að særa blygðunarkennd fólks. Í auglýsingunum má sjá bæði brjóst og rasskinnar fyrirsætanna.

Í svari segir fyrirtækið mikilvægt að nútímasamfélagið sé haft í huga þegar dæmt sé um hvað teljist viðeigandi og hvað óviðeigandi. Horfa þurfi til skoðana meirihlutans, fólks sem sé skynsamt og siðsamlegt, en ekki minnihlutans sem sé íhaldssamur.

Föt frá American Apparel njóta mikilla vinsælda um heim allan, meðal annars á Íslandi. Fyrirtækið hefur þó glímt við fjárhagsörðugleika á síðustu árum og var rekið með 86 milljón dollara tapi á síðasta ári.