Sjónvarpsauglýsing, sem unnin var fyrir átakið Á allra vörum hefur komist í úrslit í alþjóðlegu auglýsingaverðlaununum Cresta Awards. Auglýsingastofan Fíton vann auglýsinguna, en Samúel Bjarki Pétursson og Gunnar Páll Ólafsson hjá True North eru einnig tilnefndir sem framleiðendur auglýsingarinnar.

Finnur Jóhannsson Malmquist, Teiknkistofustjóri Fítons, segir í samtali við vb.is að það skipti stofuna miklu máli að komast svo langt í keppninni. „Þarna erum við komin í mjög flottan hóp í undanúrslitunum með nokkrum af flottustu auglýsingastofum heimsins. Úrslitin munu þó ekki liggja fyrir fyrr en í október, því þetta verður í vinnslu næstu mánuði.“

Að Cresta Awards standa samtök auglýsingastofa á alþjóðavettvangi og hafa verðlaunin verið veitt árlega frá árinu 1993. Veitt eru verðlaun í mörgum flokkum, þar á meðal fyrir kvikmyndaðar auglýsingar en það er flokkurinn sem Fíton, Samúel og Gunnar eru tilnefnd í nú.

Auglýsinguna sem um ræðir má sjá hér fyrir neðan.