Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, lagði fram kæru á hendur Ólafi Þór Haukssyni, sérstökum saksóknara, og Birni Þorvaldssyni, saksóknara hjá embættinu, í lok október 2013.

Í kærunni var þess farið á leit við ríkissaksóknara að hann hæfi rannsókn á hendur saksóknurunum tveimur fyrir að hafa gefið Héraðsdómi Reykjavíkur og alþjóðalögreglunni Interpol vísvitandi rangar upplýsingar í máli Sigurðar í því skyni að ná fram úrskurði héraðsdóms um handtöku hans og í framhaldinu ákvörðun Interpol um að lýsa eftir honum sem glæpamanni á flótta með svokallaðri „Red notice“auglýsingu. Ríkissaksóknari vísaði kærunni frá á þeim grundvelli að hin meintu brot saksóknaranna væru fyrnd.

Interpol lýsti eftir Sigurði með svokallaðri „Red notice“ auglýsingu. Til þess að fá fram slíka auglýsingu þarf manns að vera leitað til að koma honum fyrir dómara til þess að mæta ákæru eða í því skyni að afplána refsingu. Slíku var ekki til að dreifa í máli Sigurðar þar sem hann hafði enn ekki verið ákærður í málinu og engin refsing ákveðin.

Gestur Jónsson, lögmaður Sigurðar, segir auglýsingu Interpol hafa haft gífurlegar afleiðingar fyrir Sigurð. „Það hreinlega þurrkaðist út allur sá möguleiki sem hann hafði til að koma undir sig fótunum aftur eftir að hafa misst starf sitt þegar Kaupþing hrundi. Þetta er auðvitað jafn drastísk aðgerð og hægt er að beita gegn nokkrum manni.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .