Velta auglýsingastofa hefur verið að aukast það sem af er ári samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands. Á tímabilinu janúar til apríl á þessu ári var velta hjá auglýsingastofum tæpum 17% meiri en árið áður.

Ársreikningar helstu auglýsingastofanna fyrir síðasta ár sýna að auglýsingarmarkaðurinn hefur komið vel til baka og var hagnaður af rekstri þeirra stærstu á síðasta ári. Þegar skoðaðir eru ársreikningar stærstu auglýsingastofanna kemur í ljós að flestum tókst að sigla í gegnum samdrátt síðustu ára á auglýsingamarkaði réttum megin við núllið.

ENNEMM hagnast

Auglýsingastofan ENNEMM hagnaðist um 14 milljónir króna á árinu 2010 samanborið við tæpar tvær milljónir árið 2009. Eigið fé í árslok nam 48 milljónum króna samkvæmt efnahagsreikningi og heildareignir nema 222 milljónum króna. Ekki var greiddur arður fyrir árið 2010. Stærstu eigendur ENNEMM eru Jón Sæmundsson með tæpan 35% hlut og Harmonía ehf. með tæpan 35% hlut. Ennemm hefur hagnast öll undanfarin ár og þar er árið 2008 meðtalið.

39 starfa hjá Fíton

Fíton, stærsta eign Erlukots, hagnaðist um 13,3 milljónir í fyrra. Alls voru 39 manns á launaskrá hjá auglýsingastofunni og námu launagreiðslur til þeirra um 186 milljónum króna. Erlukot hagnaðist um 23,9 milljónir króna á árinu 2010. Stærsti eigandi Erlukots er Momac, eignarhaldsfélag Sigríðar Garðarsdóttur, sem á 50% hlut. Aðrir eigendur eru Finnur J. Malmquist og Anna Svava Sverrisdóttir, sem eiga 13% hlut hvort, og Anna Sigríður Guðmundsdóttir og Björn Jónsson, sem eiga 12% hlut hvort.

Hvíta húsið hagræðir

Hvíta húsið skilaði tæpum 10 milljónum í hagnað 2010 samanborið við 20 milljóna króna tap árið 2009. Auglýsingastofan átti við rekstrarerfiðleika að etja í kjölfar hrunsins en í ársreikningi segir að gripið hafi verið til margvíslegra aðgerða til að hagræða í rekstri og tryggja áframhaldandi rekstur. Stjórn félagsins metur stöðuna svo að tekist hafi að snúa vörn í sókn. Hvíta húsið tapaði miklu árið 2008 eftir mjög góð ár þar á undan og er eigið fé neikvætt um 22 milljónir. Eigendur Hvíta hússins eru Magnús Loftsson með 17% hlut, Sverrir Björnsson með 16% hlut, Háahlíð ehf. með 15% hlut, Kristinn Ragnar Árnason á 13% hlut og Halldór Guðmundsson með 12%. Aðrir eiga undir 10% hlut.

Íslenska auglýsingastofan, sem er ein af stærstu auglýsingastofum landsins, hefur ekki skilað ársreikningi fyrir árið 2010. Íslenska hagnaðist um 31 milljón árið 2009 og rúmlega 38 milljónir árið 2008. Uppsafnað eigið fé er talsvert eða 135 milljónir. Atli Freyr Sveinsson og Hjalti Jónsson eiga um 31% hlut hvor í gegnum eignarhaldsfélag sitt Seim ehf., en Jónas Ólafsson og Ólafur Ingi Ólafsson eiga hvor tæplega 15% hlut í Íslensku auglýsingastofunni.