Veltan í auglýsingageiranum hefur dregist saman um fjörutíu til fimmtíu prósent á milli ára, ef marka má forsvarsmenn þeirra auglýsingastofa sem Viðskiptablaðið ræddi við. Fjöldi starfsmanna í geiranum hefur því misst vinnuna.

Ástæðan er einföld: Auglýsendur - ekki síst stórir auglýsendur - hafa dregið saman seglin og auglýsa þar með minna. Þar má nefna bifreiðainnflutningsfyrirtækin og stóru bankana. Gjaldþrot fyrirtækja, til dæmis í byggingargeiranum og víðar, hafa líka haft áhrif á auglýsingastofurnar - og þær hafa þar með ekki fengið greitt fyrir unna vinnu.

Forsvarsmenn þeirra auglýsingastofa sem Viðskiptablaðið ræddi við segjast sumir hverjir hafa byrjað að segja upp fólki mánuðina fyrir jól. Þá hafi starfshlutfall sömuleiðis verið minnkað, ekki hafi verið ráðið í störf sem losnuðu og laun hafi verið lækkuð.

Allir vonast að sjálfsögðu til þess að geta haldið sjó - þótt óvissan framundan sé mikil.

Auglýsingamarkaðurinn „ekki alveg dauður"

Tilfinning manna er sú að þær stofur sem hafi stækkað hvað mest í góðærinu muni fara einna verst út úr samdrættinum. Ein auglýsingastofa er þegar farin á hausinn - Gott fólk - og þeir svartsýnustu telja að fleiri stofur gætu farið sömu leið.

Þeir sem sjá vonarglætu benda hins vegar á að auglýsingamarkaðurinn sé „ekki alveg dauður", eins og það er orðað. Ýmsir stórir aðilar séu enn að auglýsa svo sem dagvörumarkaðurinn og fjarskiptafyrirtækin. Þá séu ríkisbankarnir farnir að auglýsa - en miklu minna en bankarnir gerðu þegar góðærið var í hámarki.

_____________________________

Nánar er fjallað um auglýsingamarkaðirnn í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .