Sex bandarísk flugfélög hafa ákveðið að setja auglýsingar á brottfararspjöld sín. Er þetta ein leið til að afla nýrra tekna á tímum hækkandi olíuverðs og erfiðrar fjárhagsstöðu flugfélaga. Advertising Age greinir svo frá á vef sínum. Delta Air Lines byrjaði fyrr í vikunni og hin flugfélögin fimm munu fylgja í fótspor þess á næstu mánuðum. Viðskiptavinir flugfélaganna munu þó hafa val um hvort þeir prenta brottfararspjöld sín með eða án auglýsinga.

Samstarfsfyrirtæki flugfélaganna, Sojern, hyggst kynna hugmyndina fyrir flugfélögum í Evrópu síðar í sumar. Fimm auglýsingar komast fyrir á hvert brottfararspjald. Á meðal fyrstu auglýsenda voru fölmiðlafyrirtækið NBC Universal og kanadíski sirkusinn Cirque du Soleil.