Lekin gögn benda til þess að samskiptamiðillinn Facebook leggi nú drög að því að hefja birtingu auglýsinga í snjallsímaforritinu Messenger.

Tæknimiðillinn Tech Crunch skrifaði frétt um gögnin sem eiga að hafa lekið, en birtu ekki gögnin sjálf, svo óvíst er hvort af verði í raun og veru. En möguleikinn er og hefur alltaf verið fyrir hendi.

Þá kemur fram í þessum gögnum að fyrirtæki geti aðeins sent auglýsingar til notenda sem hafa þegar hafið samtal við þau, svo óþarfi er að óttast að fá stöðugar meldingar um auglýsingaskilaboð.

Um 800 milljón manns nota Messenger, og því er ljóst að Facebook situr á stórri tekjulind, kjósi fyrirtækið að byrja að auglýsa gegnum það. Facebook hagnaðist um 202 milljarða króna á síðasta ári, en Viðskiptablaðið fjallaði um afkomu félagsins bandaríska í síðasta mánuði.