„Það kostar pening að stofna sjónvarpsstöð. Og þegar okkur varð ljóst að kostnaðurinn yrði ekki sá sem við gerðum ráð fyrir þá sannfærðum við Íslensku auglýsingastofuna um að breyta reikningum í hlutafé,“ segir athafnamaðurinn Sigmar Vilhjálmsson, löngum þekktur sem Simmi, annar hluti tvíeykisins Simmi og Jói. Hann er jafnframt hluthafi í afþreyingafyrirtækjunum Stórveldinu og Konunglega kvikmyndafélaginu sem er að fara með tvær nýjar sjónvarpsstöðvar í loftið innan skamms. Þær heita Bravó og Mikligarður og eru hlaðnar fjölmiðlastjörnum.

Íslenska auglýsingastofan, er ein sú umsvifamesta á landinu, á 9% hlut í Konunglega kvikmyndaveldinu. Simmi segir þá Jóa og aðra sem að fjölmiðlafyrirtækjunum koma hafa lengi skipt við Íslensku auglýsingastofuna og séu menn þar vinir þeirra. Hann viðurkennir að einhverjum kunni að þykja skjóta skökku við að auglýsingastofa eigi hlut í fjölmiðli. Simmi segir það óþarfa áhyggjur. „Ég get sagt að hluturinn verður ekki lengi í þeirra eigu. Markmið okkar er að losa þá við hlutinn og að auglýsingastofan fái borgað fyrir vinnu sína,“ segir hann.