Sjónvarpsauglýsingin Láttu ekki vín breyta þér í svín , sem auglýsingastofan ENNEMM gerði fyrir Vínbúðirnar, hefur verið tilnefnd ásamt fjórum öðrum auglýsingum til verðlauna í flokknum Public Health & Safety á evrópsku auglýsingahátíðinni Eurobest sem nú stendur yfir í Stokkhólmi.

Úrslit í keppninni verða tilkynnt á morgun en þá fer verðlaunaafhending fram.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá ENNEMM

Þar kemur fram að Láttu ekki vín breyta þér í svín keppir við auglýsingar frá fjórum öðrum Evrópulöndum: austurríska auglýsingu gegn hraðakstri, belgíska auglýsingu um vitund um alnæmi, þýska auglýsingu um eyrnasuð og auglýsingu frá Ísrael um brjóstamyndatöku gegn krabbameini.

Hægt er að sjá allar tilnefningar til Eurobest verðlaunanna á vefnum www.eurobest.com .

„Láttu ekki vín breyta þér í svín herferðin mældist gríðarlega sterk hér á Íslandi í mælingu sem Capacent gerði fyrir Vínbúðirnar,“ segir í tilkynningunni.

„Sérstaklega var sá hópur stór sem sagðist líklegur til að bregðast við auglýsingunni og breyta um hegðun í kjölfarið.“

Fram kemur að Capacent bar auglýsinguna saman við 554 almannaþjónustu- og almannaheillaauglýsingar í Evrópu sem mældar höfðu verið með sömu aðferð (AdEval). Láttu ekki vín breyta þér í svín mældist að meðaltali 5% hærri en þær sem náðu hæsta skori af erlendu auglýsingunum.

Þegar auglýsingin var borin saman við allar íslenskar auglýsingar sem mældar höfðu verið með þessari aðferð kom í ljós að skor hennar var að meðaltali 41% hærra. Þeir þættir sem mest áhrif höfðu voru annars vegar persónuleikabreytingin sem fram kemur í auglýsingunni og einnig þau áhrif sem óhófleg víndrykkja hefur á börnin.

Þátttaka í Eurobest auglýsingahátíðinni, sem nú er haldin í 21. sinn hefur aldrei verið meiri. Alls voru skráningar 5.895 frá 680 fyrirtækjum í 38 löndum. Eurobest hátíðin er því stærsta auglýsingaverðlaunahátíð í Evrópu.