*

föstudagur, 10. apríl 2020
Innlent 4. september 2019 19:03

Auglýsingastofur há varnarbaráttu

Framkvæmdastjórar merkja breytingar á markaðnum því auglýsingastofur séu oft fyrstar til að finna fyrir samdrætti.

Jóhann Óli Eiðsson
Auglýsingastofur hafa áhyggjur af því að hverfi RÚV af auglýsingamarkaði muni þekking úr kvikmyndageiranum tapast. Hér má sjá stillu úr herferð Brandenburg fyrir Orkuna.
Aðsend mynd

Auglýsingastofur landsins heyja þessa dagana varnarbaráttu. Helgast hún meðal annars af efnahagssamdrætti auk þess að stærri fyrirtæki horfa í auknum mæli til þess að leysa verkefni innanhúss sem áður var úthýst.

„Okkar starfsemi er þannig að okkur hefur oft verið líkt við kanarífuglinn í námunni. Við finnum fyrst fyrir því þegar harðnar á dalnum en líka þegar uppgangurinn byrjar á ný,“ segir Ragnar Gunnarsson framkvæmdastjóri Brandenburg.

Ragnar segir að það komi honum nokkuð á óvart hve margir aðilar halda að sér höndum í samdrættinum þar sem í slíkum tímabilum geti falist möguleikar. „Það eru ákveðin tækifæri fyrir fyrirtæki til að endurskoða stefnu sína og horfa fram á við. Það hefur líka sýnt sig að þau fyrirtæki sem auglýsa og sækja fram eru fljótari að ná sér upp úr kreppunni,“ segir Ragnar.

Upptakturinn síðar á ferðinni

Hjalti Jónsson, framkvæmdastjóri Íslensku auglýsingastofunnar, tekur í svipaðan streng. „Auglýsingabransinn hefur ekki farið varhluta af samdrættinum og það hefur í raun varað frá síðasta hausti. Það hefur enn ekki komið alvöru upptaktur síðan þá. Við áttum von á stíganda í kjölfar kjarasamninganna en það hefur ekki skilað sér. Okkar mat er að það muni ekki gerast af alvöru fyrr en á fyrri hluta næsta árs,“ segir Hjalti.

Nýverið var frá því að Icelandair hyggðist færa sín viðskipti frá Íslensku til Hvíta hússins eftir þriggja áratuga samstarf. Hjalti segir að ávallt hafi verið mikil samkeppni á markaðnum og aldrei hafi verið hægt að ganga að neinu sem vísu. Hann skynji ýmsar hreyfingar þessa dagana og að menn séu að horfa í kringum sig.

„Icelandair hefur verið okkar stærsti viðskiptavinur í langan tíma og það er ljóst að við þurfum að horfa yfir sviðið. Til skemmri tíma mun þetta hafa einhver áhrif á reksturinn en það er oft þannig að þegar einar dyr lokast þá opnast aðrar,“ segir Hjalti.
Einhver dæmi eru um að stærri fyrirtæki hafi fært vinnu, sem auglýsingastofur hafa sinnt, í deildir innanhúss. Íslandsbanki steig á dögunum það skref og mun nú aðeins leita til auglýsingastofa til að græja einstök verkefni. Áður hafði bankinn verið í viðskiptum við Brandenburg.

„Það er ekkert nýtt að þetta gerist og slíkar bylgjur ganga yfir með reglulegu millibili. Stærri fyrirtæki hafa oft verið með einhvern hluta innanhúss til að leysa einföld verkefni. Raunin er hins vegar sú að ekki mörgum hefur tekist að gera efni þannig úr garði að það hefur skarað fram úr eða verið betra en áður,“ segir Ragnar.

Það hafi oft í för með sér að vinnan verði oft einsleit og hugmyndir tapist. „Innan auglýsingastofa starfar breiður hópur með ólíka þekkingu sem gefur fyrirtækjum nýja sýn á hlutina. Slíkt er mikils virði,“ segir Ragnar.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér. Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Umfjöllun um breytingar á stórafmæli aldargamals og rótgróins fyrirtækis
  • Nýr veitingastaður þekkts íslensks athafnamanns opnar á góðum en oft yfirséðum stað
  • Áhyggjur samkeppnisyfirvalda vegna fækkunar bensínsstöðva um helming á næstu árum
  • Aukinn hagnað flestra félaga í íslensku kauphöllinni
  • Breyttar niðurstöður hagmælinga eftir leiðréttingar og mat hagfræðinga á stöðu hagkerfisins nú
  • Miklir peningar eru í húfi í bandaríska fótboltanum en keppnin í NFL deildinni hefst á fimmtudag.
  • Lausn fyrir ferðaþjónustufyrirtæki í Austur-Evrópu sem þjónusta kínverska ferðamenn
  • Nýr ráðgjafi hjá Cubus er tekinn tali um ferilinn, bæði í vinnu og í söng
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs, sem fjallar um nýjan dómsmálaráðherra
  • Óðinn skrifar um Pence og peningamál