Auglýsingastofurnar Pipar og TBWA hafa sameinast undir nafninu Pipar/TBWA og verða með aðsetur í höfuðstöðvum Pipars í sama húsi og Listasafn Reykjavíkur. Eftir því sem komist verður næst mun Pipar halda sínum 13 starfsmönnum en um sjö mans koma frá TBWA þannig að samanlagt eru 20 starfsmenn á nýju auglýsingastofunni.

Framkvæmdastjóri er Valgeir Magnússon eða Valli Sport eins og hann er betur þekktur. Auglýsingastofan PIPAR/TBWA mun samkvæmt upplýsingum sem fengust á heimasíðu þeirra bjóða uppá alla almenna þjónustu í auglýsingagerð, markaðssetningu og markaðsráðgjöf, auk birtingaþjónustu í samstarfi við sérfræðinga á því sviði.

Auglýsingastofurnar hafa starfað nálægt hvor annarri og það verður stutt fyrir starfsmenn TBWA, sem er alþjóðleg auglýsingastofukeðja, að flytja yfir því þeir voru í næsta húsi í Hafnarstræti.

TBWA var áður auglýsingastofan Himinn og haf en varð hluti af TBWA, alþjóðlegu neti auglýsinga­stofa með höfuðstöðvar í New York, árið 2007.  Nafn stofunnar breytist í TBWA\Reykjavík 26. október 2007. TBWA\Reykjavík var í eigu Eiríks Aðalsteinssonar og fjölskyldu og stýrði Eiríkur félaginu.

Á sínum tíma áttu þeir Valli og Sigurður Hlöðversson Pyrit-fjölmiðlun, sem meðal annars rak útvarpsstöðvarnar KissFM og X-FM. Félögin Ár og dagur og Íslenska sjónvarpsfélagið keyptu 97 prósent hlutafjár í Pyrit-fjölmiðlun árið 2005.