Í uppgjöri DV frá 1. apríl 2010 og út árið er sala tímabilsins var 286 milljónir króna.  Rekstrartap á sama tímabili var 36 milljónir króna. Heildartap félagsins var 53 milljónir króna,  en það inniheldur meðal annars 8 milljóna króna niðurfærslu á viðskiptavild sem myndaðist við kaupin á blaðinu og 9 milljónir króna í niðurfærðum viðskiptakröfum. Tímabilið er valið með hliðsjón af því að nýir eigendur komu að rekstri blaðsins 1. apríl á síðasta ári.

Í tilkynningu segir að félagið á enn óselt hlutfé frá því að það var sett á stofn.  Stjórn félagsins hafi boðið hluthöfum félagsins og starfmönnum hlutaféð til kaups og hafa þeir nú þegar skrifað sig fyrir 13,5 milljónum króna að nafnvirði. Aðalfundur félagsins verður haldinn þann 18. maí næstkomandi.

Í fréttatilkynningu er þetta haft eftir Lilju Skaftadóttur stjórnarformanni:

„Á árinu höfum við náð frábærum árangri í sölu nýrra áskrifta og treyst þannig mjög eina af þremur  tekjustoðum blaðsins.  Jafnframt hefur aðsókn að netmiðlinum dv.is aukist jafnt og þétt.  Samfara því hafa auglýsingatekjur af dv.is ríflega tvöfaldast og eru nú tæplega 3 milljónir króna á mánuði.  Hefur auglýsingasala blaðsins einnig aukist verulega og nemur nú um 10-12 milljónum króna á mánuði.  Á árinu hyggst dv.is taka upp þá nýbreytni að selja stök eintök á netinu. Jafnframt verða greinar sem hingað til hafa einungis birst í prentaðri útgáfu boðnar til sölu. Stefnt er að því að EBITDA verði ekki neikvæð um meira ein 10 milljónar króna á þessu ári.  Stjórnin hefur ákveðið að selja hluta af því hlutafé sem gefið var út við stofnun félagsins og hefur boðið starfsmönnum og hluthöfum það til kaups.  Undirtektir hafa verið framar vonum.“

DV uppgjör
DV uppgjör
© vb.is (vb.is)

Í tilkynningunni kemur jafnfram fram að ýmislegt jákvætt megi finna í rekstri félagsins á síðasta ári. „Fjöldi áskrifenda hefur tæplega tvöfaldast á tímabilinu. Fjöldi notenda á DV.is hefur vaxið úr 130 þúsund á viku í 180 þúsund á viku. Auglýsingasala fréttavefsins dv.is hefur tvöfaldast. Áætlun gerir ráð fyrir EBITDA tapi á bilinu 5 til 15 milljón kr. á yfirstandandi rekstrarári en gert er ráð fyrir að reksturinn skili hagnaði árið 2012," segir í tilkynningu.