Mark Zuckerberg, stofnandi og stærsti eigandi Facebook, tilkynnti í dag að tekjur fyrirtækisins hefðu numið 2,9 milljörðum dollara á öðrum ársfjórðungi ársins, eða sem nemur rúmum 330 milljörðum íslenskra króna. Þessu greinir RÚV frá. Á sama ársfjórðungi í fyrra námu tekjurnar um 1,8 milljörðum dollara því erum 61 prósent tekjuaukningu að ræða milli ára.

Nettó hagnaður Facebook á öðrum ársfjórðungi var 791 milljón dollara, eða sem nemur rúmum 90 milljörðum íslenskra króna, en á sama tímabili í fyrra var nettó hagnaður 333 milljónir dollara. Því jókst hagnaður fyrirtækisins um 138 prósent.

Helsta tekjulind Facebook eru auglýsingar sem seldar eru á samskiptavefnum. Árið 2012 féll Facebook talsvert í verði sem kom mörgum í opna skjöldu. Talið var að ástæða þess hafi verið erfiðleikar við að þróa samskiptavefinn fyrir snjallsíma sem olli því að auglýsingar seldust síður á snjallsímaforriti Facebook. Nú hefur fyrirtækinu hins vegar tekist að snúa við blaðinu. Um 62 prósent allra auglýsingatekna fyrirtækisins má nú rekja til snjallsímaforrits þess.

Um 1,3 milljarðar nota Facebook í dag á heimsvísu og hefur þeim fjölgað um 14 prósent frá því í fyrra, þar af notar rúmlega milljarður Facebook í gegnum snjallsímaforrit.

Bandaríska fyrirtækið eMarketer telur að um 5,8 prósent allra auglýsinga sem seldar voru á netinu á heimsvísu árið 2013 hafi verið seldar til Facebook og talið er að talan muni hækka upp í 8 prósent í lok þessa árs.