Tekjur RÚV af auglýsingasölu nema um tveimur milljörðum króna ár hvert. Auglýsingatekjur eru í kringum 30% af heildartekjum hlutafélagsins. Þetta kemur fram í svari mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn Óla Björns Kárasonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins.

Í fyrirspurn Óla var spurt um allar tekjur RÚV frá árinu 2007. Fyrirspurnin náði því til útvarpsgjalds, auglýsingatekna, kostaðra þátta og annarra óreglulegra tekna.

Í svarinu má sjá að tekjur RÚV af auglýsingasölu hafa verið nokkuð stöðugar í kringum tvo milljarðar króna en í svarinu er miðað við fast verðlag í janúar 2019. Þó lækkuðu auglýsingatekjurnar árin 2009, þegar þær voru 1,7 milljarðar, og 2010 er þær voru 1,9 milljarðar. Mestar voru þær árið 2012, tæpir 2,4 milljarðar, en á sama tíma voru framlög af útvarpsgjaldi hvað lægst.

Sé litið til svokallaðrar kostunar, en í svarinu er ekki útlistað frekar hvað í því felst en gera má ráð fyrir að þar sé átt við um kostaða dagskrárgerð, hafa slíkar tekjur yfirleitt verið í kringum 200 milljónir ár hvert. Mestar voru þær árin 2012 og 2013, tæpar 260 milljónir. Aðrar tekjur RÚV hafa sveiflast nokkuð og eru á bilinu 200 til 360 milljónir króna.

Lægstar voru heildartekjur RÚV árið 2014, tæpir sex milljarðar, og höfðu þá dregist saman um 1,2 milljarða frá árinu 2007. Frá þeim tíma hefur rekstur hlutafélagsins verið hallalaus og eiginfjárhlutfall þess farið úr 5,5% í 28,5%. Í fyrra námu heildartekjur RÚV tæpum sjö milljörðum og voru auglýsingatekjur 2,1 milljarður þar af.