Scott Bedburry, einn virtasti markaðsmaður heims, segir að fyrsta auglýsing Nike í hinni svokölluðu Just Do It-herferð Nike sé uppáhalds auglýsingin sín. Þetta kemur fram í ítarlegu viðtali við Bedburry í Viðskiptablaðinu á fimmtudaginn þar sem hann svarar spurningum blaðamanns um allt milli himins og jarðar er tengist markaðsmálum.

Bedburry starfar nú sem ráðgjafi fyrir mörg stærstu fyrirtæki heimsins, stofnanir og ríkisstjórnir.

Sp. blm. Hver er uppáhalds auglýsingin þín?
„Það er erfitt að segja. Þegar ég hugsa til allrar þeirrar frábæru vinnu sem Nike hefur unnið í gegnum árin þá er þetta fyrir mig eins og gera upp á milli barnanna minna. En ef ég ætti að velja eina þá myndi ég velja allra fyrstu „Just Do It“ auglýsinguna sem var frumsýnd í sjónvarpi 8. ágúst 1987. Þessi tiltekna auglýsing byrjar á kvikmyndaskoti úr fjarlægð á áttræðan hlaupara að nafni Walt Stack, sem er að hlaupa eftir Golden Gate Brúnni á sólríkum degi í San Francisco, veifandi í áttina að bílum sem keyra framhjá með hvít bringuhárin standandi út í loftið. Þú heyrir hann segja: „Ég hleyp 17 mílur á dag.“ Þá kemur svört skjámynd með orðunum; Walt stack, 80 ára gamall. Walt heldur síðan áfram: „Fólk spyr mig hvernig ég komist hjá því að láta glamra í tönnunum mínum..... Ég skil þær eftir í skápnum.“ Walt reyndist sem sagt vera með gervitennur. Á eftir þessu birtist svo „Just Do It“ á skjánum.
Þetta var fyrsta tilraun Nike til þess að beita húmor í auglýsingu. Þetta var líka fyrsta auglýsing Nike um árabil þar sem tekinn var einhver annar póll í hæðina en að sýna ungan atvinnumann í íþróttum. Þetta voru skemmtileg, sjálfstæð skilaboð frá náunga sem hafði gaman af því að hlaupa á hverjum degi. „Just Do It“ markaðsherferðin hjálpaði Nike að breyta fókusnum frá tiltölulega litlum markhópi ungra karlmanna í átt að aldurs- og tímalausara vörumerki. Þessi frumsýning á auglýsingunni var líklega mikilvægasta stefnubreyting í sögu Nike.

Walt Stack endurómaði kjarnann í því sem ég vildi segja með Just Do It. Þetta voru auðskiljanleg en áhrifamikil skilaboð: Stattu áfætur og mættu öllum daglegum hindrunum sama á hvaða aldri þú ert. Sérðu hvað ég er að gera. Farðu af stað. Lífið er stutt.“

Auglýsinguna má sjá hér að neðan. Scott Bedburry verður með fyrirlestur um markaðsmál á ÍMARK-deginum á föstudaginn sem haldinn verður á Nordica.

Ítarlegt viðtal við Scott Bedburry má sjá í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun.