Samdráttur varð á sölu auglýsinga í bæði sjónvarpi og dagblöðum á fyrstu átta mánuðum ársins 2010 miðað við sama tímabil í fyrra. Þetta kemur fram í tölum sem Auglýsingamiðlun hefur unnið úr upplýsingum frá Capacent Gallup.

Í gögnunum kemur fram að sala á seldum sekúndum undir auglýsingar í sjónvarpi hafi verið 12,7% minni á fyrstu átta mánuðum ársins í ár en hún var sömu mánuði árið 2009. Fjöldi seldra sekúndna er nú svipaður og hann var árið 2008. Töluverð aukning varð á sölu sjónvarpsauglýsinga í fyrra, en þá seldust rúmlega sjö milljónir sekúndna undir slíkar auglýsingar.

Helstu breytingar sem orðið hafa á sjónvarpsmarkaði frá því að kreppan hófst eru þær að Skjár Einn ákvað að læsa sinni dagskrá og hefja rukkun afnotagjalda. Sú breyting tók ekki gildi fyrr en 1. desember 2009 og áhrif hennar á auglýsingasölu sjónvarpsstöðvarinnar koma því að mestu fram í sölutölum ársins 2010.

Mikill samdráttur í blaðaauglýsingum

Það sem af er árinu 2010 hafa selst um helmingi færri dálksentímetrar undir auglýsingar í dagblöð en á sama tíma árið 2008. Samdrátturinn hélt áfram á liðnu ári, en hann nemur 3,9% á milli áranna 2009 og 2010 þegar miðað er við selda dálksentímetra á fyrstu átta mánuðum ársins.