Bankasýsla ríkisins leitar að einstaklingum sem eru tilbúinr að bjóða sig fram í stjórnir fjármálafyrirtækja sem stofnunin fer með eignarhluti í. Bankasýslan fer með eignarhluti ríkisins í Arion banka, Íslandsbanka, Landsbankanum og fimm sparisjóðum.

Á heimasíðu stofnunarinnar er auglýst eftir áhugasömum einstaklingum um stjórnarsetu í þessum félögum. „Sérstök þriggja manna valnefnd, sem skipuð er af stjórn Bankasýslu ríkisins, tilnefnir aðila fyrir hönd ríkisins sem rétt hafa til setu fyrir hönd þess í bankaráðum eða stjórnum fyrirtækja á forræði stofnunarinnar. Stjórn Bankasýslu ríkisins óskar formlega eftir tilnefningum valnefndar um stjórnarmenn fyrir stjórnarkjör í hlutaðeigandi bankaráðum eða stjórnum.“