*

þriðjudagur, 25. febrúar 2020
Innlent 3. janúar 2020 14:22

Auglýst eftir dómara við Landsrétt

Eftir skipun eins dómara við réttinn í embætti hæstaréttardómara þarf að setja nýjan í embættið. Fjórir sinna ekki dómstörfum.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Embætti Landsréttardómara auglýst eftir að Ingveldur Einarsdóttir var skipuð í Hæstarétt eins og Viðskiptablaðið sagði frá fyrir jól.

Miklar sviptingar hafa verið vegna dómara í réttinum eftir að Mannréttindadómstóll Evrópu kvað upp um lögmæti fjögurra dómara sem dómsmálaráðherra skipaði í réttinn, en þeir höfðu ekki verið meðal efstu 15 samkvæmt hæfnisnefnd dómara en voru samt sem áður metin hæf.

Meðan beðið er eftir áfrýjun til yfirdeildar MDE hafa þessir fjórir dómarar ekki sinnt dómarastörfum, en tveir dómarar hafa verið settir í hann fram á vor meðan beðið er eftir því að yfirdeildin staðfesti lögmæti skipunar dómaranna fjögurra.

Jafnframt hefur verið auglýst eftir tveim dómurum til setningar í dóminn út sama skipunartíma, það er til 30. júní 2020, og er umsóknarfresturinn til þeirra til 6. janúar næstkomandi.

Umsóknin um embættisstöðuna nú er til 20. janúar næstkomandi, en vísað er til skilyrða úr lögum frá 2016 um hvaða skilyrði viðkomandi þarf að uppfylla, það er um menntun og reynslu auk upplýsinga um starfshæfni, faglega eiginleika og færni, sem og andlegt atgervi og sjálfstæði í vinnubrögðum.

Jafnframt þurfa umsækjendur að gefa upp tvo fyrrverandi eða núverandi samstarfsmenn eða yfirmenn sem geti veitt munnlegar og skriflegar upplýsingar um störf og samstarfshæfni umsækjanda.