„Taktu þátt í að leiða RÚV inn í nýja tíma“ var yfirskrift opnuauglýsingar í Morgunblaðinu í morgun, en þar voru auglýstar lausar til umsóknar allar stöður í framkvæmdastjórn RÚV. Níu stöður eru auglýstar en þær eru stöður framkvæmdastjóra rekstrar, fjármála og tæknisviðs, framkvæmdastjóra samskipta, þróunar- og mannauðssviðs, skrifstofustjóra, mannauðsstjóra, dagskrárstjóra Rás 1, dagskrárstjóra Rás 2, dagskrárstjóra sjónvarps, fréttastjóra og vef- og nýmiðlastjóra.

Magnús Geir Þórðarson, nýr útvarpsstjóri RÚV tilkynnti síðastliðinn þriðjudag að allar stöður framkvæmdastjóra yrðu auglýstar en fyrir voru tíu einstaklingar í framkvæmdastjórn RÚV. Þar af níu karlar og ein kona. Magnús sagði jafnframt að auka þyrfti jafnrétti kynjanna í nýrri framkvæmdastjórn og að innlend framleiðsla myndi fá meira vægi.