Nýr forstjóri Skipta á að vera með háskólamenntun sem hæfir starfinu, búa yfir farsælli reynslu af rekstri fyrirtækja og víðtæka reynslu sem leiðtogi og stjórnandi. Starfið er auglýst í Morgunblaðinu í dag. Á föstudag í síðustu viku kom fram að Steinn Logi Björnsson væri hættur sem forstjóri Skipta . Óskar Hauksson fjármálastjóri Skipta hefur tekið við sem staðgengill forstjóra þar til nýr maður verður ráðinn. VB.is greindi frá því í kjölfarið að forstjóraskiptin hafi legið í loftinu um skeið.

Í auglýsingu um starf nýs forstjóra Skipta segir m.a. forstjóra bera ábyrgð á daglegum rekstri Skipta og dótturfyrirtækja. Þau eru m.a. Skjárinn, Míla og Síminn. Þá ber hann ábyrgð á stefnumótun og uppbyggingu, undirbúningi og tillögum fyrir stjórn um fjárfestingar og rekstrarleg málefni, upplýsingagjöf til stjórnar, samskipti við hagsmunaaðila og samningagerð.

Þá segir um menntunar- og hæfniskröfurnar hann eiga að hafa gott val á íslensku og ensku, vera sjálfstæður og sýna frumkvæði í starfi og búa yfir góðum samskiptahæfileikum og samningatækni.