Ríkisskattstjóri auglýsti í gær eftir starfsmönnum til að vinna að framkvæmd leiðréttinga á höfuðstól fasteignaveðlána og ráðstöfun séreignarsparnaðar til lækkunar á höfuðstól fasteignaveðlána. Í auglýsingu á Starfatorgi segir að verkefnið sé viðamikið og verði tímabundið til 15 -24 mánaða. Vegna þess sé í undirbúningi að ráða til RSK viðbótarmannafla til að annast þessa framkvæmd.

Stofnuð hefur verið ný sjálfstæð eining sem mun hafa á hendi umsjón með framkvæmd leiðréttinga á höfuðstól verðtryggðra fasteignaveðlána einstaklinga og ráðstöfun séreignarsparnaðar inn á höfuðstól þeirra í samræmi við lög og reglugerðir þar að lútandi. Starfsmenn munu framan af sinna leiðbeiningagjöf og aðstoð við umsækjendur á umsóknartímanum, en síðar úrvinnslu og afgreiðslu umsókna og eftir atvikum öðrum verkefnum.

Starfsmenn ríkisskattstjóra eru um þessar mundir 250 á níu starfsstöðvum, þar af um 150 í aðalstöðvum í Reykjavík en verkefnið verður vistað þar.

Áformað er að hægt verði leggja inn umsókn um skuldaniðurfellingar frá og með 15. maí.