Innanríkisráðuneyti hefur birt auglýsingu um stöður héraðssaksóknara og varahéraðssaksóknara . Samkvæmt breytingu á lögum um meðferð sakamála og lögreglulögum mun nýtt embætti héraðssaksóknara taka til starfa þann 1. janúar 2016, en á sama tíma verður embætti sérstaks saksóknara lagt niður.

Embætti héraðssaksóknara mun fara með ákæruvald á lægra ákæruvaldsstigi, þ.e. ákærumeðferð sakamála og saksókn fyrir héraðsdómi, samkvæmt lögunum.

Í auglýsingunni kemur fram að áformað sé „að skipað verði í embætti héraðssaksóknara frá og með 1. september 2015 og skal hann vinna að undirbúningi að því að embætti héraðssaksóknara taki til starfa 1. janúar 2016. Gert er ráð fyrir því að skipað verði í embætti varahéraðssaksóknara frá og með 1. janúar 2016."

Bæði héraðssaksóknari og varahéraðssaksónari þurfa að uppfylla sömu hæfisskilyrði og héraðsdómarar. „Þá er æskilegt að umsækjendur hafi reynslu af stjórnun, ásamt því að hafa mjög gott vald á íslensku og ensku og þekkingu á einu Norðurlandamáli. Áhersla er enn fremur lögð á styrkleika í samvinnu og samskiptum, sem og frumkvæði og metnað til að ná árangri í starfi," segir í auglýsingu.

Eftirfarandi hæfisskilyrði eru gerð til umsækjenda, samkvæmt dómstólalögum.

  1. Hefur náð 35 ára aldri.
  2. Hefur íslenskan ríkisborgararétt.
  3. Er svo á sig kominn andlega og líkamlega að hann geti gegnt embættinu.
  4. Er lögráða og hefur aldrei misst forræði á búi sínu.
  5. Hefur hvorki gerst sekur um refsivert athæfi sem má telja svívirðilegt að almenningsáliti né sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem dómarar verða almennt að njóta.
  6. Hefur lokið embættisprófi í lögfræði eða háskólaprófi í þeirri grein sem metið verður því jafngilt.
  7. Hefur starfað í minnst þrjú ár sem héraðsdómari, hæstaréttarlögmaður, prófessor í lögum, lögreglustjóri, sýslumaður, ríkissaksóknari, vararíkissaksóknari, saksóknari, ráðuneytisstjóri, skrifstofustjóri í [ráðuneytinu]1) eða umboðsmaður Alþingis eða hefur um jafnlangan tíma gegnt öðru líku starfi sem veitir hliðstæða lögfræðilega reynslu.
  8. Telst vera hæfur til að gegna embættinu í ljósi starfsferils síns og lögfræðilegrar þekkingar.