Fjármálaráðuneytið hefur nú auglýst stöðu verkefnisstjóra í kynjaðri hagstjórn og fjárlagagerð. Ráðningin er tímabundin frá 1. desember 2010 til og með 31. október 2011.

Þetta kemur fram á vef Starfatorgs en meðal helstu hlutverka væntanlegs verkefnastjóra er að halda utan um tilraunaverkefni ráðuneyta og stofnana í kynjaðri fjárlagagerð.

Þá er verkefnisstjóra ætlað að leiðbeina og aðstoða við framkvæmd tilraunaverkefnanna og standa fyrir almennri fræðslu um kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð. Í starfinu felst einnig þátttaka í innlendu og erlendu samstarfi á þessu sviði.

Ráðuneytið gerir kröfu um háskólamenntun og staðgóða þekkingu á jafnréttismálum. Þá er hagfræðiþekking sögð æskileg sem og reynsla af fjárhagsáætlanagerð.