*

mánudagur, 13. júlí 2020
Innlent 27. júlí 2019 18:01

Auglýstu eftir markaðsfólki

Langt umsóknarferli hjá ESB tekur senn enda og þá getur Íslenska Saltbrennslan hafið framleiðslu á joðríku saltdufti.

Höskuldur Marselíusarson
Guðni Þór Þráinsson og kona hans Marie Þrándar fluttu til Hríseyjar til að koma starfsemi Íslensku Saltbrennslunnar á laggirnar í húsnæði gömlu einangrunarstöðvarinnar, og þar hefur fjölskyldan vaxið og dafnað.
Aðsend mynd

Þótt framleiðsla Íslensku Saltbrennslunnar ehf. í Hrísey byggi á aldagamalli aðferð við að brenna þara, til að fá sértaka gerð af salti sem þekkt var á víkingatímanum, hefur fyrirtæki þeirra Guðna Þórs Þráinssonar og Marie Þrándar þurft að fara í gegnum langt og strangt vottunarferli hjá Evrópusambandinu sem þau sjá nú fyrir endann á.

„Ég held að ekkert íslenskt fyrirtæki hafi farið í gegnum það að skrá svokallað nýfæði hjá Evrópusambandinu, en við þurfum þess víst því ólíkt flestum nýjum vörum, sem nota gömul og þekkt hráefni, er varan algerlega nýtt hráefni í matvælum,“ segir Guðni Þór.

„Við fáum hrossaþaramjöl frá Reykhólum sem við brennum í þar til gerðum ofni og þá fáum við fíngert duft sem hægt er að nota í mat. Það er mjög salt, og aðeins öðruvísi á bragðið og áferð heldur en venjulegt salt. Það er mjög ríkt af steinefnum, öðrum en í venjulegu salti, sem er ástæðan fyrir því að þetta er áhugavert hráefni. Þetta var gert á víkingatímanum, og minnst á þetta í bæði Landnámu og Íslenskum sjávarháttum, en aðferðin dó alveg út. Hérna í Hrísey er örnefnið Saltnef líklega tengt við þetta, enda borgaði fólk skattinn sinn hér til munkanna á miðöldum með salti og harðfiski.“

Guðni, sem sjálfur er úr Reykjavík, flutti með alla fjölskylduna norður til að vinna að verkefninu. Áhuginn kviknaði í efnafræðinámi hans en fyrsta skrefið var þátttaka í hugmyndasamkeppni á vegum Matís.

„Í dag er erum við með þetta í gömlu einangrunarstöðinni í Hrísey, þar sem var einu sinni sláturhús. Hingað til hafa þessar rannsóknir og leyfisferli tekið mesta tímann, en við erum ánægð með hrávöruna sjálfa, ég held hún sé tilbúin,“ segir Guðni sem segir saltið geta verið góða viðbót við nútíma matarræði.

„Verðmætasta efnið í svona þarasalti er joð, enda er besta aðferðin til að fá mikið af þessu nauðsynlega efni að vinna það úr þara. Maður fær dálítið af því úr fiski og öðrum mat en það er eiginlega hvergi mikið af því nema í þara. Joð er nauðsynlegt fyrir skjaldkirtilinn sem notar það til að búa til hormón sem stýrir efnaskiptum í líkamanum og svo eru rannsóknir sem sýna að það geti komið í veg fyrir brjóstakrabbamein. Allt að 70% af fólki í dag fær ekki nóg af joði og þurfa hópar eins og þeir sem eru vegan að vera sérstaklega á varðbergi fyrir því. Við töluðum á sínum tíma við Heilsuhúsið til dæmis og við sjáum alveg að fólk sem er inni í þessum málum og vakandi yfir mataræði sínu muni kaupa þetta.“

Það vakti nokkra athygli að Guðni Þór fór nokkuð nýstárlega leið í leit að samstarfsaðilum fyrir næstu skref þegar hann auglýsti eftir þeim á Facebook hópi íslenskra frumkvöðla. „Okkur vantar alla vega eina góða markaðsmanneskju með okkur í þetta fljótlega.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.