Nú þegar Spánn hefur fengið afgreidda 100 milljarða evra neyðaraðstoð frá Evrópusambandinu hefur athygli áhyggjufullra fjárfesta og sérfræðinga beinst að Ítalíu, að því er segir í frétt Bloomberg.

Skuldir Ítalíu nema um 2.000 milljörðum evra og sem hlutfall af vergri landsframleiðslu eru þær hærri en hjá nokkru öðru þróuðu ríki fyrir utan Grikkland og Japan. Fjármálaráðuneytið þarf að selja skuldabréf fyrir um 35 milljarða evra í hverjum mánuði.

Bloomberg hefur eftir Nicholas Spiro, sem stýrir Spiro Sovereign Strategy í London, að vandi Ítalíu sé sá að upplifun margra er að Ítalía geti þurft að fylgja í fótspor Spánar. Hann segir þó að grunnþættir ítalska hagkerfisins séu mun heilbrigðari en þess spænska. Það komi þó ekki í veg fyrir að Ítalía smitist af spænsku veikinni.