*

mánudagur, 24. júní 2019
Erlent 4. desember 2016 14:31

Augu Evrópu hvíla á Austurríki og Ítalíu

Þjóðernissinni af ysta hægri væng stjórnmálanna gæti orðið þjóðarleiðtogi Austurríkis í dag á meðan úrslit þjóðaratkvæðagreiðslu á Ítalíu gæti leitt til stjórnarkreppu og ýtt undir óróa á evrópskum fjármálamörkuðum.

Ritstjórn
Matteo Renzi, forsætisráðherra Ítalíu.
european pressphoto agency

Í dag er gengið til kosninga í tveimur Evrópuríkjum. Í Austurríki eru forsetakosningar endurteknar eftir að hæstiréttur landsins ógilti niðurstöður kosninganna í maí vegna brots á kosningalögum. Á Ítalíu fer fram þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur forsætisráðherrans, Matteo Renzi, að breytingum á stjórnarskrá landsins.

Tveir frambjóðendur etja kappi í forsetakosningunum í Austurríki, þeir Norbert Hofer, frambjóðandi Frelsisflokksins, og Alexander Van der Bellen, frambjóðandi Græningja. Frelsisflokkurinn (Freiheitliche Partei Österreichs) er þjóðernissinnaður hægriflokkur og Græningjar (Die Grünen) eru vinstriflokkur. Skoðanakannanir hafa sýnt að mjótt er á munum milli þeirra, en verði Hofer kosinn verður hann fyrsti þjóðarleiðtogi Evrópu frá síðari heimsstyrjöld sem er þjóðernissinni af ysta hægri væng stjórnmálanna.

Á Ítalíu er kosið um tillögur Renzis um róttækar breytingar á stærð og valdsviði öldungadeildar ítalska þingsins. Renzi leggur til að öldungadeildarþingmönnum verði fækkað úr 315 í 100 og öldungadeildin svipt valdi til að leggja fram og samþykkja vantrauststillögur á ríkisstjórn landsins. Einnig er lagt til að ekki verði kosið til öldungadeildar í almennum kosningum, heldur muni hún samanstanda af 21 borgarstjóra, 74 héraðs- og sveitarstjórnum og fimm fulltrúum skipaðir af forsetanum.

Renzi hefur lofað að segja af sér ef tillögurnar verða fellar og þá gæti tekið við stjórnarkreppa. Talsverður órói hefur ríkt á evrópskum fjármálamörkuðum undanfarið vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar, enda er talið líklegt að tilraunir til að bjarga veikburða bönkum á Ítalíu frá því í sumar (t.d. Monte dei Paschi) fari út um þúfur ef Renzi tapar. Bankar í Suður-Evrópu standa mjög veikum fótum um þessar mundir og fall kerfislega mikilvægra banka á borð við Monte dei Paschi gæti hrundið af stað nýrri bankakrísu á evrusvæðinu.

Evrópusambandssinnar óttast sigur Hofer og að tillögur Renzi verði felldar, þar sem Hofer hefur lofað þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB-aðild og Ítalía gæti farið sömu leið og Bretar gerðu í sumar. Ennfremur er óttast að sigur Hofer gæti hrundið af stað bylgju af sigrum þjóðernissinnaðra flokka í komandi kosningum annarra Evrópulanda, svo sem í Frakklandi, Þýskalandi og Hollandi.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is