Erlendir fjölmiðlar fylgjast grannt með Íslandi þessar vikurnar og um helgina greindu þeir frá mótmælunum á Austurvelli og átökunum við lögreglustöðina í Reykjavík.

Danska viðskiptablaðið Börsen segir til dæmis frá því að mörg þúsund manns hafi á Austurvelli krafist afsagnar seðlabankastjóra, Davíðs Oddssonar og forsætisráðherra, Geirs H. Haarde, vegna bankahrunsins.

Þá segir frá því að lögreglan hafi beitt táragasi á hundruð mótmælenda sem gerðu aðsúg að lögreglustöðinni í Reykjavík. Þeir hafi krafist þess að mótmælandi, sem hafi verið handtekinn, yrði látinn laus.

Haft er eftir Herði Torfasyni, skipuleggjanda mótmælanna á Austurvelli, að mótmælin myndu halda áfram þar til ríkisstjórnin segði af sér.