Þjóðaratkvæðagreiðsla um tilboð lánardrottna Grikklands verður spennandi, ef marka má niðurstöður skoðanakannana í Grikklandi. Í skoðanakönnun Bloomberg er gert ráð fyrir að 42,5% Grikkja muni segja já við tillögunum en 43% segi nei. 14,5% eru óákveðnir, samkvæmt skoðanakönnun Bloomberg.

Miklar líkur eru taldar á því að myntsamstarf Grikklands og Evrópusambandsins sé komið á endastöð, ef nei verður fyrir valinu. Þess vegna eru niðurstöður skoðanakannana um þjóðaratkvæðagreiðslu nokkuð á skjön við afstöðu Grikkja til þess hvort þeir vilji halda evrunni eða ekki, því 81% þeirra vilja halda henni en einungis 12% vilja aðra mynt.

„Já" mönnum hefur vaxið ásmegin undanfarna daga því 25. júní hugðust eingöngu rúm 25% kjósa já í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Aftur á móti ætluðu rúm 50% að kjósa nei.

Fyrirtæki halda í sér andanum

Grískir bankar eru lokaðir, og því eru mörg fyrirtæki sem ekki geta greitt fyrir innfluttar vörur sem eru nýttar í framleiðslu. Mörg fyrirtæki hafa því þegar lokað og önnur halda niðri í sér andanum í von um að ástandið leysist á allra næstu dögum.

Þá hafa bókanir ferðamanna dregist verulega saman, ef marka má upplýsingar frá flugrekendum. Um helmingi minni aðsókn er til Grikklands nú miðað við eðlilegt árferði.

Þá eru flestir hraðbankar tómir í landinu.