Landkynning er séríslenskt hugtak, en Íslendingum hefur alla tíð frá landníði Blefkens verið mikið í mun að hróður landsins berist sem víðast. Í því skyni hafa menn svo í seinni tíð lagt mikið í fyrirbæri á borð við Íslandsstofu, sem vitaskuld ber enn meiri vigt nú þegar ferðamennska er orðin upphaf og endir íslensks samfélags. Eða hvað?

Þegar gramsað er í gagnakirnum Google kemur á daginn að forvitni umheimsins um Ísland er einstaklega bundin við eldsumbrot. Og lítið annað. Sem hlýtur að vera landkynningarkvöðlum ábending um hvenær þeir eigi að láta til sín taka. Annars er einnig athyglisvert hvaðan áhuginn beinist helst að Íslandi (óháð eldgosum). Hlutfallslega eru það okkar góðu grannar á Grænlandi og í Færeyjum, sem langoftast forvitnast um Ísland á Google, þar næst Bretar en aðrir mun minna.