Í nýrri greininingu Greiningardeildar Arion banka á olíumarkaðinum kemur meðal annars fram að á fyrri hluta árs hafi olíuverð hafi haldist nokkuð stöðugt á bilinu 40 til 50 dollara á fatið. Greiningu Greiningardeildar Arion banka er hægt að lesa hér.

Hins vegar beinast augu flestra að OPEC ríkjunum sem hafa nú boðað til fundar þann 30. nóvember með það að markmiði að sporna gegn offramboði.

Hver tekur á sig skellinn?

Í greiningunni kemur meðal annars fram að á fundi OPEC ríkjanna hafi þau ákveðið að ná framleiðslunni niður í 32,5-33 milljónir fata á dag - en þrátt fyrir það hefur framleiðsla á olíu aukist um 240 þúsund tunnur á dag í október. Því þyrfti að draga úr framleiðslu um 0,6 til 1,1 milljón á dag.

Þau ríki sem juku hvað mest við framleiðslu eru Nígería, Líbýa og Íran, sem eru öll undanskilin samkomulaginu, því er stóra spurningin, hver tekur á sig skellinn? Einnig hefur komið fram að Sádi-Arabía hefur hótað að auka framleiðslu sína talsvert ef ekkert verður úr samkomulaginu til að keyra niður verðið.

Aðrir framleiðendur

Þrátt fyrir ef OPEC ríkin nái saman, þá er ekki sjálfsagt að önnur lönd skrúfi fyrir olíuframleiðslu. Það skapi í raun hvata fyrir önnur ríki að framleiða meira. Greiningardeild Arion banka bendir einnig á það að markaðshlutdeild OPEC hefur farið lækkandi og því þyrftu aðrir stórir framleiðendur að taka þátt, til að mynda Rússar.

Olíuframleiðsla í Bandaríkjunum er einnig orðin hagkvæmari og olíuborpöllum hefur tekið af fjölga aftur. Ástæðan að mati Greiningardeildinnar gæti verið sú að einhverjir framleiðendur hafi náð að verja sig og festa verðið í 50 dollurum á fatið.

Trump áhrifin

Donald Trump hefur talað fyrir því í kosningarbaráttu sinni að gera Bandaríkin óháð innflutningi á olíu með því að rýmka reglugerðir. Sem hefði í kjölfarið þau áhrif að olíuframleiðsla vestanhafs yrði stóraukin.

Ef að Trump lætur slag standa og riftir kjarnorkusamningi við Íran gæti hann stuðlað að hærra olíuverði. „Með því að setja aftur viðskiptabann á Íran gæti Trump gert það sem OPEC hefur ekki tekist — að draga úr framboði um milljón tunnur á dag,“ segir einnig í greiningunni.

Eftirspurn og framboð

Greiningardeildin tekur einnig til tölur um eftirspurnarvöxt, en EIA spáir því að olíuneysla í heiminum komi til með aukast um 1,6% á næsta ári - en þó er útlit fyrir minni eftirspurn frá Kína.

Þrátt fyrir það segir í greiningunni að á endanum kemur þetta niður á því saman; Framboð og eftirspurn eru ekki í jafnvægi og að við erum enn þá að „drukkna“ í olíu. Ójafnvægi á markaði setur í kjölfarið pressu á verðið, segir að lokum í greiningunni.