„Þetta er sérstakur tími í bankageiranum,“ segir Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, en hún tók við bankastjórastarfinu í byrjun árs 2017. Lilja á sér þó lengri sögu með Landsbankanum. Hún starfaði hjá Landsbankanum í London á árunum 2005 til 2008. Frá árinu 2008 til ársins 2016 starfaði Lilja fyrir gamla Landsbankann, LBI. „Þegar ég tók við byrjaði ég á að kynnast bankanum. Ég fór um bankann og ræddi við fólk um hvað það væri að gera og um framtíðarsýn þess. Í framhaldinu mótuðum við áherslur með viðskiptavininn í öndvegi og eftir þeim höfum við unnið undanfarin tvö ár. Þær lúta einkum að því að auka þægindin með aukinni stafrænni þjónustu. Samhliða því höfum við unnið eftir  fjárhagslegum makrmiðum sem voru sett áður en ég kom í bankann og snúast meðal annars um að koma á sem hagkvæmastri skipun efnahags hjá bankanum. Þegar ég tók við má segja að við höfum verið hálfnuð með það verkefni, við vorum ekki búin að fara í neina víkjandi útgáfu og vorum með talsvert umfram eigið fé,“ segir Lilja.

Áhættan þrýstist út á jaðrana

Bankarnir hafa háð varnarbaráttu á mörgum vígstöðvum á fjármálamarkaði. Lífeyrissjóðir hafa sótt í sig veðrið í fasteignalánum til einstaklinga á lægri kjörum en bankarnir hafa getað boðið og stærstu íslensku fyrirtækin hafa getað sótt sér lánsfé erlendis á kjörum sem bankarnir hafa ekki getað keppt við. Bankarnir hafa bent á að bankaskatturinn hafi í för með sér að þeir greiði hærri skatta en minni fjármálafyrirtæki, lífeyrissjóðir og erlendir bankar sem komi niður á þeim kjörum sem þeir geti boðið sínum viðskiptavinum. Því til viðbótar hafi áherslan í fjármálaeftirliti á síðustu árum verið að gera sífellt meiri kröfur til bankanna sem skili sér í hærri kostnaði á meðan minni kvaðir hafi verið lagðar á lífeyrissjóði og minni fjármálafyrirtæki.

Niðurfærsla tveggja sjóða hjá GAMMA sem greint var frá í lok september um tugi prósenta vegna mistaka í rekstri ýfði upp gömul sár í þjóðfélaginu og ljóst að vantraust í garð fjármálakerfisins er enn mikið.

Í Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið sem gefin var út fyrir ári var birt niðurstaða könnunar um hvaða orð kæmi upp í hugann þegar fólk heyrði orðið bankakerfi. Orð á borð við græðgi, okur, vantraust, spilling og óheiðarleiki voru áberandi í niðurstöðunum.

Lilja segir að hún hafi látið gera sömu könnun og gerð var í Hvítbókinni nema orðinu bankakerfinu var skipt út fyrir „bankinn þinn“. Þá birtist önnur og jákvæðari mynd: Traustur, þægilegur, góð þjónusta, góður og öruggur voru meðal þeirra orða sem oftast voru nefnd af viðskiptavinum.

„Stóra eign bankans er traust. Traust til þjónustunnar sem við veitum, viðskiptavinir treysta því að við séum ábyrg í okkar þjónustu og ráðgjöf og að bankinn sé rekinn á þann hátt að hann sé til staðar til framtíðar. Það er meginviðfangsefni okkar að byggja upp og viðhalda trausti.“ Hvað varðar eftirlit með fjármálaþjónustu þurfi að horfa á áhættu út frá víðara sjónarhorni.

„Augun eru sannarlega á bönkunum. Þegar það er sett mikið eftirlit á bankana þrýstist allskonar starfsemi út á jaðrana sem fær miklu minni athygli. Það þarf að jafna leikreglurnar því annars eykst áhættan í kerfinu og slíkt bitnar ekki síst á stærstu bönkunum. Það eru víðtækar reglur og kvaðir á fjármálastarfsemi og þau fyrirtæki sem eru á þessum markaði þurfa að hafa töluverðan mannfjölda, kerfi og fjármuni til að geta uppfyllt þær gæðakröfur sem gerðar eru,“ segir Lilja.

Þá hefur hún einnig áhyggjur af því hvað gerist verði niðursveifla í hagkerfinu og lífeyrissjóðirnir þurfi að takast á við vanskil sjóðfélaga. „Ef eitthvað kemur upp á erum við í allt annarri stöðu en lífeyrissjóðir að taka á móti viðskiptavinum í erfiðleikum. Við erum búin að fara margoft í gegnum ýmsar aðgerðir á borð við viðbrögð við greiðsluerfiðleikum og skilmálabreytingar fyrir tugþúsundir viðskiptavina. Það þarf að hugsa fyrirfram um hver áhættan er og hvaða kröfur eiga að vera til starfseminnar.“

Nánar er rætt við Lilju Björk í bókinni 300 stærstu sem er komin út. Hægt er að kaupa eintak af bókinni hér .