Samanlagðar eignir hundrað ríkustu manna heims á lista Forbes-tímaritsins nema um 1751,8 milljörðum bandaríkjadala, eða sem nemur rúmlega 116 þúsund milljörðum króna.

Til samanburðar má geta þess að fasteignamat fyrir allar eignir hérlendis hljóðar upp á 4.065 milljarða króna og heildargjöld ríkissjóðs árið 2008 eru áætluð rúmir 430 milljarðar króna.

Samanlögð eign auðmannanna hundrað er því ríflega 28,5 sinnum meiri en heildarfasteignamat (húsmat og lóðarmat) eigna á Íslandi.

Rúmlega 0,002% af eign hundrað ríkustu

Af þessum tæplega 1752 milljörðum dollara eiga tíu ríkustu mennirnir 426 milljarða til samans, eða rétt tæpan fjórðung.

Á lista Forbes að þessu sinni eru 1062 milljarðarmæringar, sá ríkasti þeirra, hinn 77 ára gamli bandaríski fjárfestir Warren Buffett, er talinn eiga sem nemur 62 milljörðum dollara, og sá „fátækasti” þeirra, hinn 72 ára gamli Edward Watkins Jr, en auðlegð hans er sprottin frá afa hans sem fann upp stimpilklukkuna, er talinn eiga sem nemur 1 milljarði dollara.

Einu Íslendingarnir sem komast á lista Forbes í ár, feðgarnir Björgólfur Thor Björgólfsson og Björgólfur Guðmundsson, eru samtals taldir eiga 3,6 milljarða dala, eða sem nemur 304,6 milljörðum króna, sem verður að teljast lágt hlutfall miðað við auðlegð hinna hundrað ríkustu í heiminum, eða nákvæmlega 0,002055%

Flestir af hundrað ríkustu mönnum heims búa í Bandaríkjunum, eða 33 talsins, 19 búa í Rússlandi, 9 búa í Indlandi, 5 í Þýskalandi, 3 í Bretlandi, 3 í Hong Kong og 3 í Frakklandi. Aðrir búa annars staðar í heiminum.