Ríkisskattstjóri hefur nú heimild til að loka gistiheimilum sem ekki standa skil á tilskyldum sköttum. Þá hyggjast yfirvöld setja aukinn kraft í eftirlit með gistiheimilum sem ekki hafa tilskilin leyfi til starfseminnar. Þetta kom fram í kvöldfréttum Stöðvar tvö þar sem Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, sagði meðal annars mörg hundruð leyfislausar íbúðir í útleigu í miðbænum. „Sala á gistirýmum til ferðamanna er leyfisskyld og það ætti að loka rýmum umsvifalaust sem eru ekki með leyfi,“ sagði Erna.

Á vefsíðunni airbnb auglýsa um 800 einstaklingar heimagistingu, allt frá stökum herbergjum í heilu húsin. Líkt og Viðskiptablaðið hefur fjallað um þá eru fæstir í þeim hópi með þau leyfi sem þarf til að selja gistingu.

Aðgerðahópur skipaður fulltrúum frá fjármálaráðuneytinu, ríkisskattsstjóra, lögreglustjóra og ferðaþjónustunni hefur undanfarna mánuði unnið að úrbótum í þessum málaflokki. Kynning á þeim verða á næstu dögum.