BioNTech og Pfizer hyggjast framleiða 500 milljónir skammta af Covid-19 bóluefninu umfram það sem fyrri áætlanir fyrir árið 2021 gerðu ráð fyrir. Standist þau markmið munu félögin framleiða alls 2,5 milljarða skammta í ár. Financial Times greinir frá.

Þýska líftæknifyrirtækið BioNTech sagði í ársreikningi sínum sem birtist í dag að hin aukna framleiðsla væri mögulega vegna umbæta í framleiðsluferlinu og stækkun framleiðslu- og birgjakerfi fyrir bóluefnið, sem kallast BNT162b2 eða Comirnaty.

Fyrirtækin höfðu upphaflega heitið að framleiða 1,3 milljarða skammta árið 2020 en hækkuðu viðmiðið í tvo milljarða í janúar síðastliðnum. BioNTech segir að fyrirtækin tvö hafi afhent meira en 200 milljónir skammta frá og með 23. mars síðastliðnum.

Fyrirtækin hafa skrifað undir samninga fyrir pantanir á 1,4 milljörðum skammta í ár. Þessar pantanir munu skila BioNTech tekjur að fjárhæð rúmlega 9,8 milljörðum evra. Þýska fyrirtækið væntir þess að skrifa undir fleiri samninga á næstunni.

Lyfjastofnun Evrópu heimilaði á föstudaginn framleiðslu á bóluefninu í verksmiðju BioNTech í Marburg í Þýskalandi. Fyrirtækið keypti verksmiðjuna í október síðastliðnum og stefnir á að framleiða í henni einn milljarð skammta af bóluefninu í ár.