Stjórn Eikar fasteignafélag hefur lagt til að hlutafé félagsins verði aukið um rúma 1,2 milljarða króna auk auka eigið féð til viðbótar á næstu misserum um þrjá milljarða. Hlutafjáraukningin gengur væntanlega í gegn á næstu dögum, að sögn Garðars Hannesar Friðjónssonar, forstjóra fasteignafélagsins.

Fram kemur í tilkynningu frá Eik fasteignafélagi að þann 17. janúar síðastliðinn samþykkti hluthafafundur Eikar fasteignafélags að veita stjórn félagsins tvískipta heimild til að hækka hlutafé þess í tengslum við kaup á EF1 hf. (ákveðnar eignir SMI ehf.) og Landfestum ehf. Á grundvelli heimildar í 4. gr. samþykkta Eikar fasteignafélags hf. leggur stjórn félagsins til að gefa út nýja hluti í félaginu sem afhentir verða Arion banka hf. sem greiðsla fyrir allt hlutafé Landfesta. Eftir hlutafjáraukninguna mun hlutafé Eikar fasteignafélags nema rétt rúmlega 2,9 milljörðum króna og verður heildarvirði nýrra hluta sem Arion banki fær 6,8 milljörðum króna.

Þá segir í tilkynningunni að félagið hafi fest kaup á öllu hlutafé EF1 hf. fyrir um fjórar milljónir en heildareignir og skuldir félagsins námu um 15 milljörðum króna. EF1 hf. hefur síðan þá greitt upp lán og Eik fasteignafélag hf. gengist í ábyrgð fyrir lánum félagsins.

Leiðrétting: Í fyrri útgáfu fréttarinnar sagði að Eik fasteignafélag hafi keypt EF1 hf fyrir fjóra milljarða króna. Þar átti að standa fjórar milljónir króna.