*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 21. maí 2020 11:45

Auka svigrúm til bónusgreiðslna

Hækka á heimild hjá fasteignafélaginu Eik til að greiða árangurstengdar greiðslur úr 10% í 16% af heildarlaunum.

Ritstjórn
Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri Eikar.
Haraldur Guðjónsson

Fasteignafélagið Eik hyggist gera breytingu á starfskjarastefnu félagsins þannig að svigrúm til bónusgreiðslna verði aukið. Stjórn félagsins leggur til við aðalfund þann 10. júní að að hækka hlutfall árangurstengdra greiðslna úr 10% í 16% af heildarlaunakjörum. Í greinargerð stjórnar með tillögunni segir að markmiðið sé að auka svigrúm félagsins til þess að umbuna starfsmönnum fyrir árangur í starfi. 

Hlutfallið á að reiknast ofan á öll laun starfsmanns á ársgrundvelli, önnur en árangurstengdar launagreiðslur. Í tillögu að starfskjarastefnu segir að launakjör skuli taka mið af markaðsaðstæðum hverju sinni. Heimilt sé að umbuna starfsfólki til viðbótar föstum umsömdum launum vegna sérstakra aðstæðna eða árangurs. Umbunin skuli taka mið af frammistöðu, ábyrgð og mikilvægum áföngum í rekstri og starfsemi félagsins.

Tilnefningarnefnd félagsins leggur til óbreytta stjórn milli ára. Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, er stjórnarformaður Eikar, en aðrir stjórnarmenn eru Arna Harðardóttir, Agla Elísabet Hendriksdóttir, Bjarni Kristján Þorvarðarson og Guðrún Bergsteinsdóttir.

Þá er lagt til að laun stjórnarmanna hækki í samræmi við verðlagshækkanir síðasta árs. Þannig hækki laun stjórnarformanns úr 650 þúsund krónum í 668 þúsund krónum á mánuði, laun varaformanns úr 487,5 þúsund krónum í 501,5 þúsund krónur og almennra stjórnarmanna úr 325 þúsund krónum í 335 þúsund krónur á mánuði. Laun og hlunnindi Garðar Hannesar Friðjónssonar, forstjóra félagsins námu um 3,3 milljónum króna á mánuði á síðasta ári. 

Félagið hyggst ekki greiða út arð á árinu vegna óvissu sem uppi er í efnahagslífinu vegna heimsfaraldursins. Óskað er eftir því að heimild til að kaupa eigin bréf á næstu 18 mánuðum verði framlengd. Eik tapaði 235 milljónum króna á fyrsta ársfjórðungi þessa árs en hagnaðist um tæpa þrjá milljarða króna króna árið 2019.

Stikkorð: Eik