Með því að skapa traust á íslensku fjárfestingarumhverfi mætti draga úr hættunni á því að fjármagn streymi úr landi þegar fjármagnshöft eru afnumin. Þetta segir í sjónarmiði Viðskiptaráðs Íslands. VÍ segir að draga megi úr útstreymi fjármagns við afnám hafta og auka flæði nýs fjármagns inn í landið.

Viðskiptaráð segir að Ísland hafi lokað á fjárfestingar erlendra aðila á fjölmörgum sviðum atvinnulífsins og gert þeim erfitt fyrir á ýmsa vegu. Þá segir VÍ að fáir alþjóðasamningar séu hérlendis sem geti liðkað fyrir fjárfestingu milli landa, ekki hafi verið gætt að því að haga hér regluverki og skattkerfi með þeim hætti að umhverfi fjárfestingar hérlendis sé með sem hagfelldustum hætti. Viðskiptaráð telur að fjölga megi fjárfestingarkostum hérlendis, m.a. með breytingu á eignarhaldi innlendra fjármálafyrirtækja og auknum möguleikum einkaaðila til að fjárfesta í framkvæmdum fyrir hið opinbera

„Erlend fjárfesting mun leika stórt hlutverk í þeirri atburðarrás sem fer af stað við afnám hafta. Þar er lykilatriði að búið hafi verið um hnútana þannig að skilyrði til fjárfestingar séu sem best hérlendis. Það mun draga úr útstreymi fjármagns, styðja við gengi krónunnar og hjálpa við fjármögnun verkefna sem styðja við hagvöxt hérlendis á komandi árum,“ segir í sjónarmiði VÍ.