Franski bílaframleiðandinn Renault mun koma til með að auka við framleiðslu sína í Íran og mun innan nokkurra ára framleiða um 300.000 bíla í landinu árlega. Þetta kemur fram á vef BBC í dag.

Ákvörðunin er niðurstaða samkomulags milli einkafyrlrtækisins Parto Negin Naseh, Renault og íranskra stjórnvalda. Sagði Thierry Bollore, yfirmaður hjá Renault, að um væri að ræða sögulegan samning fyrir Renault í Íran.

Renault framleiðir nú þegar um 200.000 bíla á ári í Íran og hefur verið með framleiðslustarfsemi í landinu frá árinu 2004 að frátöldum árunum 2012-2016 þegar Evrópusambandið beitti landið efnahagsþvingunum.