Örn Þór Alfreðsson, framkvæmdastjóri þjónustulausna hjá Origo, segir að viðbúnaður hér á landi vegna yfirvofandi netárása Rússa hafi aukist mjög undanfarna daga eftir innrás Rússa í Úkraínu.

„Vöktun okkar á innviðum fyrirtækja og stofnana hér á landi hefur verið sett á hærra viðbragðsstig. Við erum að vakta umhverfi viðskiptavina okkar í rauntíma út frá hættunni á mögulegum netárásum,“ segir Örn.

Hann segir Origo hafa tekið sér leiðandi stöðu í netöryggismálum og skilgreint þann part sem einn mikilvægasta part í starfsemi sinni. „Dæmin hafa sannað að það er ekki enn þá nógu mikil vitundavakning hjá æðstu stjórnendum fyrirtækja hversu mikilvægt er að huga að þeim hættum sem fylgja aukinni notkun á skýjaþjónustum og tengingum við umheiminn í gegnum internetið.“

Örn segir að netöryggi vísi til þess að vernda kerfi tengd internetinu gegn ógnum í netheimum. „Það felur í sér að vernda hugbúnað, gögn og vélbúnað og koma í veg fyrir að óprúttnir aðilar í annarlegum tilgangi nái yfir aðgangi að tækjum eða netkerfum viðkomandi aðila. Það er afar mikilvægt að tryggja starfsemina fyrir rekstrarstöðvun eða truflunum á starfsemi vegna netöryggis bresta. Rétt eins og þú verndar heimili þitt með því að læsa hurðinni þegar þú ferð að heiman ættir þú að vernda netið þitt og tölvukerfi með góðu netöryggi og umgjörð.“

Netöryggi meðal annarra þátta nær yfir skýjaöryggi og almennt öryggi gagna þar með talið auðkennisstjórnun, tölvu- og snjallsíma, netkerfa ofl. „Netöryggi felur einnig í sér endurheimt hamfara eða samfellu áætlanagerð sem lýsir hvernig fyrirtæki bregðast við ef upp kemur grunur eða netöryggis brestur og hvernig á að fyrirbyggja og viðhalda rekstraröryggi,“ segir Örn ennfremur.

Örn leggur áherslu á að þessar áætlanir séu prófaðar reglulega og þeim viðhaldið. „Afritun gagna og kerfa ásamt tryggðri endurheimtáætlun hefur aldrei verið eins mikilvæg eins og staðan er núna eins og dæmi hafa sannað.“

Hann segir að ýmislegt beri að hafa í huga er varðar öruggan rekstur og umgjörð fyrirtækja utan um netöryggi og tryggja öruggari rekstur og uppitíma þjónustu og kerfa. „Fyrirtæki þurfa að vita hvar gögnin og þjónustan eru hýst í skýinu, hvaða áskoranir eru til staðar og hvernig er hægt að bregðast við þeim o.sfrv. Hvernig eru tengingar, viðhald kerfa, uppfærslur, endurheimaáætlun og ofl. Það er margt sem þarf að hafa í huga í þessum efnum,“ segir hann.