„Hugmyndin á bak við Konto er að búa til einfalt reikningakerfi, sem er einungis reikningakerfi. Grunnurinn að öllum reikningakerfum hingað til hefur verið bókhaldskerfi. Bókhaldskerfin eru mýmörg og mjög góð og henta endurskoðendum og bókurum frábærlega, en henta ekki eins vel fyrir venjulegt fólk,“ segir Kristján Gunnarsson, stofnandi Konto. Hann bendir jafnframt á að 99% af aðgerðum verktaka sem nota bókhaldskerfi eru einfaldlega til að búa til reikninga og senda þá.

Kristján stendur ekki einn á bak við Konto. Meðeigendur í fyrirtækinu eru Þorsteinn Gestsson og Guðmundur Kárason. „Ég seldi hlut minn í Kosmos & Kaos og hætti þar í júní á seinasta ári og fór á fullt í þetta. Þorsteinn Gestsson var áður hjá Advania og fór hann líka á fullt í þetta verkefni um mitt síðasta ár. Svo erum við einnig með Guðmund Kárason sem er lögfræðingur. Hann er sérfræðingurinn okkar í rafrænum viðskiptum og þekkir lagahliðina bak við þetta út og inn, svo skilmálar og samningar eru alveg upp á 10,“ segir Kristján.

Kynntust þessu á eigin skinni

Kristján segir að hugmyndin hafi kviknað vegna þess að þeir hafa allir verið í eigin rekstri áður. Kristján segir því að þeir hafi allir kynnst þessu á eigin skinni. „Margir kannast við hvað það er frústrerandi að vinna í flóknu kerfi einu sinni í mánuði og vera svo búinn að gleyma því í næsta mánuði.“

Spurður að því hverjir koma til með að nýta sér þjónustuna segir Kristján: „Konto kemur til með að leggja áherslu á að þjónusta lítil og meðalstór fyrirtæki og þá sér í lagi fyrirtæki sem eru ekki með fjármálastjóra. Konto hentar líka frá- bærlega fyrir einyrkja, einstaklinga sem gleymast stundum. Það er fullt af einstaklingum sem senda reikninga. Svo spilar það inn í að áður mátti einstaklingur bara þéna eina milljón án þess að þurfa að gefa út reikninga með virðisauka en það er komið upp í tvær milljónir. Lögin voru rýmkuð núna um áramótin. Það þurfa ekki allir að stofna fyrirtæki fyrir eitthvert smotterí. Sprengingin í stofnun fyrirtækja á Íslandi er rugl. Það er enginn maður með mönnum hérna nema hann sé með ehf.“

Innblásnir af Bílastæðasjóði

Konto hefur einnig kannað það hvernig lausnin getur aukið virði fyrir notandann. „Þess vegna er kerfið frítt fyrir þessa venjulegu aðgerð að senda reikning með pdf skjali, það er í raun sáralítill kostnaður fyrir okkur annað en rekstur á kerfinu. Síðan tókum við þetta skrefinu lengra og hugsuðum með okkur: hvernig getum við bætt tekjuflæðið hjá notendum Konto? Það er að hvetja fólk til að borga reikningana sem fyrst. Þar vorum við innblásnir af Bílastæðasjóði. Ef maður borgar stöðumælasektina sína snemma þá fær maður afslátt af henni. Það er til í bankakerfinu virkni sem gerir það að verkum að þú getir lækkað kröfu í ákveðinn dagafjölda. Þetta köllum við hraðgreiðsluafslátt. Pælingin er að alltaf þegar þú sendir reikning getur þú sjálfvirkt stofnað kröfu í netbanka og boðið upp á hraðgreiðsluafslátt, það getur verið prósenta eða peningaupphæð,“ tekur Kristján fram að lokum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, áskrifendur geta nálgast blaðið á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.